Vefþjóðviljinn 106. tbl. 16. árg.
Þau ánægjulegu tíðindi bárust í vikunni að svonefnd stofnvísitala þorsks hefði ekki mælst hærri síðan 1985. Þetta er fimmta árið í röð sem þorskstofninum vex fiskur um hrygg svo vonir eru um að þarna sé raunveruleg styrking á ferðinni þótt metin sé með óvissuvísindunum sem fræðin um fisk í höfunum óneitanlega eru.
Íslendingar gengu vafalítið of nærri fiskistofnunum á meðan veiðum var stýrt með öðrum ráðum en varanlegum aflaheimildum eða kvótakerfi. En um leið og aflaheimildir urðu varanlegar og seljanlegar breyttist auðvitað tónninn í útgerðarmönnum. Með kvótakerfinu voru verðmæti útgerðarfyrirtækjanna beintengt ástandi fiskistofnanna. Kvóti í sterkum stofni er auðvitað meira virði en í veikum stofni. Heildarafli er hins vegar ákveðinn af sjávarútvegsráðherra hverju sinni og eins og aðrir stjórnmálamenn verður hann fyrir beinum þrýstingi frá mönnum sem vilja komast inn í kerfið með því að auka veiðina eða grafa undan kostum kvótakerfisins með einum eða öðrum hætti þótt það sé sjálfsagt kallað strandveiðar, byggðakvótar eða eitthvað annað fallegt.
Birgir Tjörvi Pétursson héraðsdómslögmaður ritaði grein í Morgunblaðið um síðustu helgi þar sem hann tekur til varna fyrir eignarrétt í útgerð.
Birgir Tjörvi segir tillögur ríkisstjórnarinnar um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða byggðar á vafasömum grundvelli. Annars vegar á landlægum misskilningi um réttarstöðu landsmanna gagnvart fiskstofnum sjávar umhverfis Ísland. Hins vegar á varhugaverðum hugmyndum um samþjöppun valds hjá hinu opinbera.
Fiskstofnarnir á Íslandsmiðum hafa aldrei verið í eigu neins frá því land byggðist. Þeir hafa farið um miðin, sem teljast enn almenningur í lagalegum skilningi, eigendalausir á meðan óveiddir. Viðurkennt hefur verið að þjóðarétti og landsrétti, m.a. í dómum Hæstaréttar, að Alþingi hafi í skjóli fullveldisréttar síns heimild til að setja reglur um nýtingu þessarar auðlindar. Fullveldisréttur þessi, sem Alþingi fer með í umboði kjósenda, er ekki eignarréttur. Hann felur ekki í sér sameignarrétt þjóðarinnar.
Yfirlýsing 1. gr. laga um stjórn fiskveiða nr. 116/2006, um að nytjastofnar sjávar séu sameign þjóðarinnar, hefur enga eignarréttarlega merkingu. Það hefur verið næsta óumdeilt meðal fræðimanna á sviði lögfræði. Stjórnarskrártillögur svonefndrar stjórnlaganefndar ganga jafnframt út frá þessum skilningi, sbr. t.d. grein Skúla Magnússonar, dósents við lagadeild Háskóla Íslands, í Fréttablaðinu 28. mars sl. en þar sagði: „Í ákvæði stjórnlaganefndar felst að „þjóðareign“ vísar ekki til eignarréttar í lagalegum skilningi – hvorki ríkiseignar né sérstaks (nýs) eignarforms.“
Það fær ekki staðist nokkra lögfræðilega skoðun, að þjóðin eigi rétt á leigugjaldi fyrir fiskveiðirétt, eins og t.d. fasteignareigandi fyrir leigu fasteignar sinnar, enda er hún hvorki eigandi nytjastofnanna né réttindanna til að veiða þá. Að sjálfsögðu getur Alþingi eigi að síður, standi vilji til þess, lagt skatt eða aðrar kvaðir á þá sem eiga fiskveiðiréttindin, að virtum ákvæðum stjórnarskrár. En það er ekki á grundvelli eignarréttar þjóðarinnar, svo mikið er víst.
Til eru þeir sem andæfa þessu og tala um »bókstafstrú« lögfræðinga og „lagahyggju.“ Þá hina sömu verður að spyrja: Á hverju verður þetta samfélag byggt ef ekki á lögum? Tískusveiflum í pólitík? Andúð á tilteknum hagsmunaaðilum? Tilfinningasemi? Geðþótta einstakra stjórnmálamanna?
Birgir lýsir svo þeim kostum eru í boði hvað varðar nýtingu auðlinda lands og sjávar.
Ekkert skipulag sýnist heppilegra til verðmætasköpunar eða falla betur að meginsjónarmiðum þeim sem íslenska stjórnarskráin byggir. Að einstaklingar og fyrirtæki þeirra fari með eignarrétt á gæðunum, nýti þau og ráðstafi. Ríkið setji reglurnar og hafi eftirlit. Það að ríkið sé á hinn bóginn eigandi allra gæða, úthluti þeim til nýtingar gegn himinháu gjaldi, stýri svo takmörkuðum nýtingarrétti að auki með reglusetningu og eftirliti er í anda róttækrar ríkisforsjárstefnu. Þetta sjá allir sem vilja. Slík stefna leiðir til mikillar samþjöppunar valds hjá ríkinu, sem væri alls kostar óheppileg þróun. Hún væri á skjön við anda þeirrar stjórnskipunar sem við höfum byggt á, sem gengur út frá því að vald ríkisins sé takmarkað og temprað, en réttindi einstaklinga tryggð, meðal annars til eigna sinna og atvinnufrelsis.