Helgarsprokið 8. apríl 2012

Vefþjóðviljinn 99. tbl. 16. árg.

Kristur á krossinum. Albrecht Durer málaði á 15. öld.
Kristur á krossinum. Albrecht Durer málaði á 15. öld.

Með fullri virðingu fyrir Víðsjá Ríkisútvarpsins þá finnst varla meiri samanþjappaður pólitískur rétttrúnaður en í Fréttablaðinu, sem allt höfuðborgarsvæðið er í óumbeðinni áskrift að. Forsíðan geymir ósjaldan fjórdálkafréttir af launamun kynjanna eða að einhver nefnd telji ekki nóg að gert til að reisa mosku eða berjast við fordóma og kynferðislega áreitni. Þeir leiðarar blaðsins sem ekki fjalla um inngöngu í Evrópusambandið fjalla um kynjabaráttuna og gætu flestallir verið skrifaðir á skrifstofu jafnréttisstofu, sem skattgreiðendur halda enn úti þrátt fyrir nýfrjálshyggjuárin hans Geirs og blóðuga niðurskurðinn hans Steingríms.

Meðal þeirra sem af og til fá brýningar frá ritstjórn Fréttablaðsins er kirkjan. Hún er of gamaldags, hún á að þróast í takt við tímann, grípa tækifærið, stíga fram, rétta fram sáttahönd, endurnýjast, láta af gamaldags viðhorfum og margt fleira áríðandi. 

Nú munu kirkjunnar menn standa í því að kjósa sér biskup. Í boði er karl og kona. Vefþjóðviljinn tekur reyndar fram, að eins og svo fjölmargir aðrir þá les hann Fréttablaðið sjaldan af verulegri athygli, enda hefur hann aldrei beðið um áskrift að því, og með þeim fyrirvara spyr hann: Getur verið að Fréttablaðið ætli ekki að taka eindregna afstöðu í því kjöri, konunni í vil? Getur verið að aldrei þessu vant ætli Fréttablaðið ekki að hvetja kjörmennina til að „grípa tækifærið“, taka „framsækið skref“ og gera nú konu að biskupi?

Og ef þetta er rétt, getur þá verið að þar spili inn í að karlinn í framboði er einmitt fastur pistlahöfundur á Fréttablaðinu, sjálfur mikill boðberi pólitísks rétttrúnaðar?

Eins og tekið var fram, þá getur verið að skrif Fréttablaðsins til stuðnings konunni hafi farið fram hjá Vefþjóðviljanum, og þá mun Fréttablaðið fyrirgefa það af því umburðarlyndi sem það er þekkt fyrir. En ef þetta er í raun svona, þá er þetta lítið dæmi af mörgum sömu ættar.

Ríkið hefur lengi rekið sérstaka nefnd um „aukinn hlut kvenna í stjórnmálum“. Slík nefnd lét sér oft sæma að auglýsa, fyrir opinbert fé, fyrir prófkjör stjórnmálaflokkanna og hvetja kjósendur til að velja konur og þá auðvitað á kostnað karla. Fyrir borgarstjórnarkosningarnar þrjár þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var borgarstjóraefni vinstrimanna var hamast í þessa veru. Þá fóru álitsgjafarnir og femínstarnir hamförum í því hversu mikilvægt það væri að kona væri borgarstjóri í Reykjavík. En þegar val borgarbúa stóð um Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, Dag B. Eggertsson og Jón Gnarr Kristinsson þá breyttist það. Þá var ekkert mikilvægt lengur að kona væri borgarstjóri.

Kynjabaráttan er nefnilega oft fyrst og fremst skálkaskjól. Frasinn um að menn eigi að styðja konu í kosningum eða velja konu til embættis er oft í raun aðallega barátta fyrir einhverju öðru. Í raun fyrir tiltekinni konu af því að hún er vinstrimaður en ekki af því að hún er kona. Eða í raun gegn tilteknum karli af því að hann er ekki vinstrimaður, en ekki af því að hann er ekki kona. Hvers vegna ætli Fréttablaðið hamist ekki í því að kirkjan velji sér konu til biskups í fyrsta skipti í tæp þúsund ár? Hvers vegna ætli enginn leggi nú að mótframbjóðanda konunnar að draga sig bara til baka svo kirkjan geti stigið stórt skref til framtíðar og bla bla? 

Hvernig var það þegar Bretar fengu fyrstu og enn sem komið er einu konuna í embætti forsætisráðherra? Eða þegar bandarískir repúblikanar buðu upp á konu sem varaforsetaefni í síðustu kosningum þar í landi? Álitsgjafarnir hata þær báðar. Þegar þær voru í framboði datt álitsgjöfunum ekki í hug að það væri mikilvægt að fá konu til trúnaðarstarfa. Rétt eins og það var alveg óþarft þegar sjálfstæðismenn buðu upp á Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, en er víst allt í einu að verða mjög mikilvægt aftur, nú þegar Samfylkingarmenn vilja skipta um krata á Bessastöðum.

Nýlega voru samþykkt lög sem skipa eigendum fyrirtæka að velja sér stjórnarmenn eftir kynferði stjórnarmannanna. Femínistar landsins telja þau lög mikið framfaraskref, enda sjá femínstar sjaldan neitt að því að leggja annað fólk með valdi undir lífssýn sína. Sömu femínstar sáu ekkert æskilegt við að Hanna Birna Kristjánsdóttir yrði borgarstjóri í Reykjavík. Það segir meiri sögu en margt annað, að þeir sem ekki sáu ástæðu til að berjast fyrir því með lýðræðislegum hætti að kona yrði borgarstjóri í Reykjavík, vilja knýja fram með lögum að konur sitji í stjórn Sjóklæðagerðarinnar.

Í dag er páskadagur, helgasta hátíð kristinna manna. Þá ættu femínistar að geta horft með stolti til baka. Lærisveinarnir, allir karlar, flúnir. Símon Pétur búinn að afneita í þriðja sinn að ekki sé minnst á þann sem sveik. En hverjar stóðu við krossinn og flúðu ekki, nema konurnar? Og hverjar voru það sem einar gerðu sér ferð að gröfinni á páskadagsmorgun og fengu fyrstar allra manna að heyra að Kristur væri upprisinn?

Vefþjóðviljinn óskar lesendum sínum öllum gleðilegra páska.