Vefþjóðviljinn 98. tbl. 16. árg.
Ríkissjónvarpið hafði það eftir Steingrími J. Sigfússyni allsherjarráðherra á skírdag að mjög líklegt væri að ráðist yrði í „úrbætur á barnabóta- og vaxtabótakerfinu“, og væri ákvörðunar um það að vænta eftir páska.
Þegar viðtalið við Steingrím var svo sýnt þá boðaði hann að barnabætur og aðrar bætur yrðu hækkaðar. Hann notaði hins vegar ekki orðið „úrbætur“, heldur virðist sú einkunn, sem yfirvofandi breytingar fá, einfaldlega vera dómur fréttastofu Ríkissjónvarpsins.
Steingrímur boðaði fleira en hækkun barnabóta. Hann vill koma á sérstökum „húsnæðisbótum“ sem feli í sér ríkisstuðning við „leigjendur og þá sem eru að koma sér upp húsnæði“, og varla þarf að efast um að fréttastofu Ríkissjónvarpsins mun einnig þykja það vera úrbætur.
Með öðrum orðum: Það á að halda áfram á braut vasapeningaþjóðfélagsins. Skattleggja, skattleggja og skattleggja, og útdeila svo „bótum“ til fólks, eftir því sem ríkisstjórninni þykir réttast hverju sinni.
Ríkisstjórnin hækkar skatta af miklum móð, leggur álögur á atvinnulífið eins og hún getur, fyrir nú utan allar kreddurnar sínar sem hún lögbindur, allt frá kynjaskiptingu í stjórnir fyrirtækja til hreinna árása á undirstöðuatvinnuveg landsins.
Og þegar búið er að búa til nýja skattstofna á fólk og fyrirtæki, og hækka þá skatta sem fyrir voru, þá á að mylgra út bótum hér og bótum þar. Við völd eru nefnilega vinstrimenn sem vilja ráðstafa lífi hins almenna manns með sköttum, bótum, fyrirmælum, boðum og bönnum. Þessar aðgerðir stjórnarinnar eru nefnilega engin tilviljun eða út í loftið. Að baki býr hugmyndafræði vinstrimannsins, sem vill skipta sér af daglegu lífi samborgarans í eins miklum smáatriðum og hann mögulega getur.
Það er afar brýnt að hrinda vinstraokinu af landsmönnum og vinda ofan af frelsisskerðingum og skattahækkunum síðustu vinstriára.