Föstudagur 6. apríl 2012

Vefþjóðviljinn 97. tbl. 16. árg.

Jón Gunnarsson alþingismaður notaði orðin kommúnismi og kommar í ræðu á Alþingi á dögunum. Var þeim orðum beint til stjórnarmeirihlutans sem taldi að Alþingi þyrfti ekki að ræða efnislega tillögu að nýrri stjórnarskrá sem kom frá svonefndu stjórnlagaráði.

Þá hnussaði í mörgum. Ómálefnalegt hjá Jóni, ekki satt?

Nú væri auðvitað freistandi að byrja á því að rifja það upp hverjir það voru sem vildu allt vald til ráðanna.

Eða segja stuttlega frá aðdáun stjórnarþingmannsins Lúðvíks Geirssonar á Lenín. Lúðvík var spurður: „Á hvaða stjórnmálamanni lífs eða liðnum hefur þú mest álit á? Og Lúðvík svaraði: „Lenín hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér. Hann var traustur foringi.“

Jafnvel mætti bæta við að Árni Þór Sigurðsson stjórnarþingmaður hikaði ekki við að ganga um með húfu með mynd af Che Guevara. Þegar menn væru á annað borð komnir í hátískuna mætti geta þess að Vinstri hreyfingin grænt framboð lét framleiða nærboli með mynd af Chengrími formanni sínum og sama mynd var notuð á heimasíðu flokksins undir hvatningarorðunum „Styrkja flokkinn.“

Og ef menn vilja halda þessu áfram mætti fletta því upp í dagblaði þegar Björgvin G. Sigurðsson og Róbert Marshall, nú þingmenn Samfylkingarinnar, fóru í pílagrímsför til Frakklands að finna aðra unga kommúnista. Björgvin sagði frá förinni í Vikublaðinu 14. apríl 1997:

Ráðstefnuhaldari var ungliðahreyfing franska kommúnistaflokksins og var aðbúnaður og umgjörð samtakanna með ólíkindum góður. Þeir eiga sitt eigið fimm hæða hús, fjöldann allan af bílum og höfðu tugi manns í launuðum störfum fyrir hreyfinguna; framkvæmdastjóra, alþjóðatengiliði og ritstjórn á mánaðarlegu tímariti samtakanna. Þau samtök sem sóttu ráðstefnuna auk Verðandi voru ungir sósíaldemókratar frá Rúmeníu, Belgíu og Austurríki, ungir kommúnistar frá Ítalíu, Spáni, Kýpur og Grikklandi og sósíalistar frá Portúgal og Katalóníu. Samtökin sem allar þessar ungliðahreyfingar mynda munu svo halda heimshátíð á Kúbu í sumar og er Verðandi boðin þátttaka í henni.

Já ekkert slor hjá kommunum og þó var ekki komið að hápunkti veislunnar. Gefum Björgvini orðið á ný:

Hápunktur ferðarinnar átti sér stað á bar aðfararnótt sunnudagsins. Þar var mestallur hópurinn staddur saman að lokinni glæsilegri matarveislu í boði Frakkanna. Hápunkturinn fólst í því að einn úr hópnum taldi niður í Internationalinn og sungu hann allir með hárri raust, hver á sínu tungumáli. Þegar Nallinn glumdi um veggi kráarinnar var okkur íslenskum vinstrimönnum endanlega ljóst að hugsjónir vinstrimanna lifa ennþá góðu lífi víða um heim þrátt fyrir áhrifaleysi þeirra hérlendis og þá hægriorgíu sem hér ríkir. Því verðum við að leita allra leiða til að auka hlut okkar í stjórnmálunum og nota öll meðul sem til þarf til að helga þann heilaga tilgang að koma á vinstristjórn á Íslandi.