Vefþjóðviljinn 100. tbl. 16. árg.
Nú vill Vefþjóðviljinn beina orðum sínum til þingmanna stjórnarandstöðunnar:
Viljið þið gjöra svo vel og panta ykkur ekki utanlandsferð fyrir sumarið.
Við völd situr versta vinstristjórn í manna minnum. Hún dælir nú inn á þingið frumvarpi eftir frumvarp, þar sem lögleiða á kreddur hennar og ráðast á flest sem hinum almenna vinstrimanni er í nöp við. Það er hlutverk þingmanna stjórnarandstöðunnar að berjast gegn því. Hingað til hafa þeir náð takmörkuðum árangri. Yfirleitt hafa þeir lagt niður vopnin þegar Jóhanna Sigurðardóttir hefur hótað að halda þingi áfram út sumarið. Stjórnarandstöðuþingmennirnir hafa nefnilega gert sumarleyfisáætlanir, pantað utanlandsferð, leigt bíl eða skráð sig á frönskunámskeið, og þegar þessi árvissa hótun Jóhönnu kemur, þá missa þeir móðinn.
Og þetta vita stjórnarliðar. Þeir tefla einfaldlega fram Jóhönnu Sigurðardóttur, sem aldrei semur um neitt og aldrei heyrir nein sjónarmið nema sín eigin, og gegn því endist stjórnarandstaðan aldrei. Eftir nokkurra daga baráttu, og svolitla gagnrýni á vefsíðum Samfylkingarinnar, gefast stjórnarandstæðingar upp og semja um umræðulok án þess að fá neitt í staðinn.
En nú ættu þeir að hafa vaðið fyrir neðan sig. Sleppa því að panta utanlandsferðir og reyna að berjast aðeins gegn vinstrivæðingunni eitt vorið.
Hugsanlega verða vefsíður Samfylkingarinnar líka svo uppteknar af því að skipta um krata á Bessastöðum, að þær hafa ekki tíma til að ráðast á þá á meðan.