Laugardagur 31. mars 2012

Vefþjóðviljinn 91. tbl. 16. árg.

Seðlabankinn undraðist samninga um 3,5% launahækkanir. Launakostnaður bankans sjálfs hækkaði um 19% milli ára.
Seðlabankinn undraðist samninga um 3,5% launahækkanir. Launakostnaður bankans sjálfs hækkaði um 19% milli ára.

Síðastliðið haust máttu vinnuveitendur og launþegar þeirra sitja undir skömmum Þórarins G. Péturssonar aðalhagsfræðings Seðlabanka Íslands fyrir kauphækkanir. Seðlabankamönnum þóttu slíkar umvandanir við hæfi jafnvel þótt þessar almennu umsömdu hækkanir upp á um 4% dygðu ekki til að halda í við verðfall á mynt bankans, sem yfirvöld neyða launagreiðendur til að greiða launin með.

Eftirfarandi var haft eftir aðalhagfræðingnum: 

Hvernig datt ykkur í hug að semja um þessar launahækkanir?

Seðlabankinn hefur nú gefið út ársskýrslu sína fyrir árið 2011. Þar kemur fram að launakostnaður bankans hækkaði um 19% frá árinu 2010. Laun hækkuðu úr kr. 1.046.445.000 árið 2010 í kr. 1.244.203.000 árið 2011. Þegar tekið er tillit til þess að starfsmönnum fjölgaði úr 147 í 161 milli ára hafa meðallaun starfsmanna bankans hækkað um 8,6%.

Þessi hækkun gæti þó verið vanmetin því Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefur stefnt bankanum vegna launahækkunar sem hann telur sig eiga inni. Már krefst 25% hækkunar launa sinna.

Annað sem vekur athygli þegar launakostnaður bankans er skoðaður er hlutfall lífeyrisgreiðslna af launagreiðslum. Í flestum fyrirtækjum landsins er þetta hlutfall 10%. Vinnuveitandi greiðir 8% í sameignarsjóð og 2% í séreignarsjóð, samtals 10%. Hjá Seðlabanka Íslands er þetta hlutfall 13,7%. 

Það virðist því sem bankinn greiði starfsmönnum sínum að meðaltali nær tvöfalt hærra mótframlag í séreignasjóð en venjulegt launafólk fær.

Vefþjóðviljinn treystir því að þessar rausnarlegu greiðslur bankans í séreignarsjóði starfsmanna renni eingöngu í innlenda séreignarsjóði. Annars væri bankinn að „grafa undan gengi“ krónunnar eins og það er kallað ef einhver selur krónur fyrir aðra mynt og sendir þær úr landi.

Ef svo ólíklega vill til að þessar greiðslur fari að einhverju leyti í erlenda sjóði blasir við að þegar krónunum er skipt hlýtur að vera notast við útboðsgengi seðlabankans, sem er um 235 krónur fyrir evruna.