Föstudagur 30. mars 2012

Vefþjóðviljinn 90. tbl. 16. árg.

Stjórnarflokkarnir láta Þór Saari og félaga halda að Sjálfstæðisflokkurinn hafi stöðvað gerð könnunar um moðsuðuna úr stjórnlagaráði.
Stjórnarflokkarnir láta Þór Saari og félaga halda að Sjálfstæðisflokkurinn hafi stöðvað gerð könnunar um moðsuðuna úr stjórnlagaráði.

Stjórnarliðar á þingi leika núna hárnákvæmt leikrit.

Jafnvel þeir eru fyrir löngu búnir að átta sig á því að tillögur „stjórnlagaráðs“ eru ómögulegur samsetningur og koma ekki til greina sem stjórnarskrá. En þeir vita líka að í „stjórnlagaráðinu“, sem búið var til svo komast mætti fram hjá ógildingu hæstaréttar á skrípakosningunni til stjórnlagaþings, sitja margir mikilvægustu áróðursmanna þeirra, og þar í kring eru svo nokkrir heitir áhugamenn um afnám gildandi stjórnarskrár, og þessa menn vill stjórnarmeirihlutinn ekki styggja. 

Þá liggur fyrir að Hreyfingin, Þór Saari og félagar, eru með stjórnarskrárbreytingar á heilanum. Ríkisstjórnin þarf að hafa atkvæði þeirri tiltæk í þinginu.

Þess vegna var búið til leikritið sem leikið hefur verið í þinghúsinu undanfarna daga. Það hefur verið vitað árum saman að forsetakosningar fara fram síðasta laugardag í júní árið 2012. Það er einnig vitað að samkvæmt lögum þarf að ákveða þjóðaratkvæðagreiðslu með þriggja mánaða fyrirvara. Menn höfðu marga mánuði til að ákveða að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram samhliða forsetakosningum, ef þeir hefðu viljað það. „Stjórnlagaráðið“ skilaði tillögu sinni síðasta sumar. Engu að síður stillti ríkisstjórnin málum þannig upp, að tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu kom inn í þingið aðeins örfáum dögum áður en frestur til að samþykkja hana rann út. Þannig var tryggt að jafnvel núverandi þingflokkur Sjálfstæðisflokksins réði við að stöðva málið. Í þinginu vita allir að núverandi þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur lítið úthald. Hann hefði vart þraukað mikið lengur en hann þurfti að þessu sinni.

Og þannig tókst stjórnarliðum að losa sig við þá skömm að leggja óboðlegar tillögurnar í þjóðaratkvæði þegar fjöldi manna myndi mæta, en láta einfeldningana halda að það hafi verið Sjálfstæðisflokkurinn sem hindraði það. Ef tillögurnar hefðu verið lagðar í þjóðaratkvæði samhliða forsetakosningum hefðu þær vafalaust kolfallið. Nú geta menn valið um að gleyma vitleysistillögunum algerlega, eða leggja þær einfaldlega í atkvæðagreiðslu sem yrði eins og kosningin til stjórnlagaþings: mikill meirihluti manna sæti hneykslaður heima, en háværi minnihlutinn mætti og kysi eins og álitsgjafarnir boða.

Ein spurning að lokum: Kjörstaðir í forsetakosningum verða opnaðir að morgni 30.júní. Hvers vegna ætli stjórnarmeirihlutinn hafi miðað tímafrestinn til að samþykkja þingsályktunartillöguna við miðnætti 29. mars, en ekki morgun 30. mars? Ætli það hafi nokkuð verið vegna þess að stjórnarliðar hafi vitað að Sjálfstæðisflokkurinn hefði aldrei nennt að berjast alla nóttina? Þingmenn Sjálfstæðisflokksins líta fæstir á þingið sem löggjafarþing heldur fyrst og fremst sem „vinnustað“ sem eigi eins og aðrir vinnustaðir að vera „fjölskylduvænn“.