Þriðjudagur 27. mars 2012

Vefþjóðviljinn 87. tbl. 16. árg.

Vaxtabætur hvetja til skuldsetningar og eru ríkisstyrkur til bankans. Húsaleigubætur halda uppi verði á húsaleigu og enda að hluta í vasa leigusalans.
Vaxtabætur hvetja til skuldsetningar og eru ríkisstyrkur til bankans. Húsaleigubætur halda uppi verði á húsaleigu og enda að hluta í vasa leigusalans.

Nýlega hefur verið vakin athygli á tveimur málum þar sem ríkið virðist mismuna mönnum.

Annars vegar vakti Helgi Hjörvar alþingismaður athygli á því að hlutfall fatlaðra starfsmanna stjórnarráðsins er mjög lágt. Væntanlega er þá átt við að hlutfallið sé lægra en almennt gerist meðal landsmanna. Þetta mál má leysa með því að fækka starfsmönnum ráðuneytanna án þess að hrófla við fötluðu starfsmönnunum.

Hins vegar niðurgreiðir ríkið kostnað fólks við eigið húsnæði mun meira en kostnað manna við að leigja sér íbúð. Vaxtabætur munu almennt vera feitari biti en húsaleigubætur. Vaxtabætur voru ein ástæða hinnar gríðarlegu skuldsetningar íslenskra heimila. Hví ekki að bæta við sig láni þegar ríkið verðlaunar þig fyrir það með skattfrjálsum greiðslum?

Bæta má úr þessari mismunun með því að snarlækka vaxtabæturnar. Til að taka af allan vafa um mismunun væri þó öruggast með afnema bæði vaxtabæturnar og húsaleigubæturnar.

Í þessu samhengi má ekki heldur gleyma því að þótt húsaleigubætur séu greiddar til leigjandans getur leigusali auðvitað krafist hærri leigugreiðslu en ef engin niðurgreiðsla væri til staðar. Og skuldugur húseigandi deilir niðurgreiðslu vaxtakostnaðar að einhverju leyti með bankanum. Bankinn nær að lána meira og getur heimt hærri vexti vegna niðurgreiðslunnar frá ríkinu.