Mánudagur 26. mars 2012

Vefþjóðviljinn 86. tbl. 16. árg.

Samfylkingarhópurinn „Betri valkost á Bessastaði“ lét nýlega kanna hvaða möguleika nokkrir frambjóðendur, einkum draumaframbjóðendur hópsins, ættu gegn Ólafi Ragnari Grímssyni

Fyrir þessu merkilega framtaki fara samfylkingarmennirnir Svala Jónsdóttir og Ingibjörg Stefánsdóttir

Þeir sem þekkja ekki þær stöllur geta kynnt sér sjónarmið þeirra á bloggsíðum þeirra. Ingibjörg segir til að mynda frá ævintýri lífs síns í síðustu færslu frá 20. apríl 2009:

Fyrir tilviljun gafst mér tækifæri til þess að fara í rósagöngu með Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra síðast liðinn laugardag. Það var ótrúleg upplifun. Kannski ekkert skrítið að fólk sé ánægt og hissa þegar sjálfur forsætisráðherrann bankar upp á til þess að gefa rós. Svona frábærum móttökum átti ég samt ekki von á.

Varla hefur niðurstaða könnunarinnar þó glatt menn í þessu félagi áhugamanna um áframhaldandi eignarhald Samfylkingarinnar á Bessastöðum. 

Niðurstaðan er nefnilega annars vegar sú, að Ólafur Ragnar Grímsson nýtur talsverðs fylgis þótt það sé langt frá því sem sitjandi forseti getur almennt vænst, og hins vegar sú að enginn þeirra hinna sem nefndur var í könnuninni virðist eiga mikla möguleika á embættinu.

Að sjálfsögðu hefur þessi hópur Samfylkingarmanna ekkert látið uppi um hver fjármagnar gerð skoðanakannana og annað brölt hans. Því á þeim bænum er „allt upp á borði“ aðallega í orði.