Helgarsprokið 25. mars 2012

Vefþjóðviljinn 85. tbl. 16. árg.

Það hefur ekki farið hjá því að margir Íslendingar hafi fundið til einhvers konar hópsektar vegna hruns íslenska fjármálakerfisins haustið 2008. Fólkið sem fann til samkenndar og jafnvel þjóðernisstolts vegna þess sem virtist velgengni bankanna á árunum fyrir hrun sveiflaðist hratt yfir í skömm yfir örlögum útrásarinnar. 

En í miðri vanmetakennd Íslendinga hrundu bankar í flestum öðrum löndum hins vestræna heims, þótt mörgum væri bjargað með veði í skattgreiðslum næstu kynslóða. Engu að síður eru enn margir þeirrar skoðunar að fjármálahrunið hafi verið „séríslenskt“ fyrirbæri og núllstilla beri þjóðfélagið til að slíkt hendi ekki aftur.

En var íslenska bankabólan íslensk?

Sem kunnugt er munu efnahagsreikningar íslensku bankanna hafa verið um tíföld landsframleiðsla Íslands áður en bankarnir féllu. Þetta hlutfall hafði hækkað hratt á nokkrum árum. Það gefur því auga leið að fleiri en Íslendingar lögðu í púkkið.

Þrátt fyrir alla upplýsingatæknina í fjármálakerfum nútímans virðist ekki nokkur leið að slá því föstu með sæmilegri nákvæmni hvaðan sumt lánsfé íslensku bankanna kom í raun. Þessar upplýsingar var til að mynda ekki að finna í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem var þó að kortleggja bankahrunið. Nú nokkrum árum eftir hrun bankanna liggja þessar upplýsingar heldur ekki á lausu. 

Það er því nokkur óvissa um hverjir blésu lofti í íslensku fjármálabóluna. En það má reyna að gera sér grófa hugmynd um það.

Eftir því sem Vefþjóðviljinn kemst næst var framlag Íslendinga um 5%. Ef notuð er skipting frá BIS frá júní 2008 um hvernig erlendar skuldir íslenska bankakerfisins skiptust má brjóta hin 95% niður á lönd. Þá má áætla að Þjóðverjar hafi verið með um 45% af heildarskuldunum, Bretar upp undir tíund og svo komu Frakkar, Belgar og Austurríkismenn með um 6%. Restin, um 28%, skiptist svo að mestu á 11 lönd.

Rétt er að ítreka að þetta er byggt á mjög grófri nálgun og er að gefnum ákveðnum forsendum. Vefþjóðviljinn myndi fagna því ef einhvers staðar leynast traustari upplýsingar um þetta mál.

En aðalatriðið í þessu sambandi er að sjálfsögðu hlutfall íslensku og erlendu skulda bankakerfisins en ekki nákvæmlega hverslenskir tilteknir lánveitendur voru.

Stjórnendur íslensku bankanna báru auðvitað meginábyrgð á rekstri þeirra og hér er ekki verið að reyna að breiða yfir hlut þeirra eða Íslendinga heldur er þetta örlítil tilraun til að setja hlutina í samhengi. Stjórnendur bankanna hefðu ekki getað þanið banka sína út á þennan hátt án auðfengins lánsfjár. Og ekkert bendir til annars en að hið fúla loft í íslensku bankabóluna hafi að mestu leyti verið innflutt.

Sem leiðir svo auðvitað hugann að þeim kostakjörum sem stærstu seðlabankar Vesturlanda buðu á lánsfé á bóluárunum. 

Íslensku bankarnir voru að mestu fjármagnaðir á alþjóðlegum markaði, eins og aðrar stórar lánastofnanir á Vesturlöndum, og lánuðu sömuleiðis út um allar jarðir.

Hlutur Íslendinga í fjármögnun á þessu dæmi var lítill. Hvers vegna eiga Íslendingar þá að skammast sín sérstaklega fyrir þrot íslensku bankanna? Bera Íslendingar einhverja hópábyrgð á því þegar virðulegir þýskir og breskir bankar lána íslenskum einkabanka fé með ógætilegum hætti?