Laugardagur 24. mars 2012

Vefþjóðviljinn 84. tbl. 16. árg.

Íslendingum vegnaði bara ágætlega áður en íslenska ríkið hóf útgáfu gjaldmiðils. Það eru nægir gjaldmiðlar í veröldinni. Það er heldur engin ástæða til að stjórnmálamenn velji gjaldmiðil fyrir hinn almenna Íslending. Allt talið um að „taka upp“ nýja mynt miðar að því að stjórnmálamennirnir ákveði þetta fyrir landsmenn. Það er engin sérstök þörf á því.

Það er hins vegar ein mynt sem mætti gjarnan taka niður.

Seðlabanki Íslands er með öðrum orðum fullkomlega óþörf stofnun. 

Þar innandyra virðist jafnframt vera menn með ansi háar hugmyndir um spádómsgáfu sína þótt reynslan ætti að vera búin að kenna þeim nokkra hógværð í þeim efnum.

Nú telja þeir sig geta kortlagt hvenær erlendir krónueigendur vilji fara úr landinu með eigur sínar.

Í frétt Morgunblaðsins í gær sagði:

Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri segir umræðuna einkennast af of miklum öfgum: á meðan sumir telji að það taki áratugi að afnema höftin segja aðrir hægt að losa um þau á þremur mánuðum. Að sögn Arnórs liggur sannleikurinn þarna einhvers staðar á milli. „Losun hafta með ásættanlegum árangri mun væntanlega taka nokkur ár.“ Hann segir ekki hægt að tímasetja með nákvæmum hætti afnám gjaldeyrishaftanna án verulegrar áhættu fyrir fjármálastöðugleika af því að Seðlabankinn veitt ekki hversu stór hluti aflandskrónueigenda er óstöðugur. „Útboð Seðlabankans munu leiða í ljós hversu stór hluti þetta er,“ segir Arnór.

Hér birtist oftrúin á Excel rétt eina ferðina. Aðstæður og ákvarðanir einstaklinga breytast miklu hraðar en starfsmenn seðlabankans eða annarra opinberra stofnana ráða við að pikka inn í töflureiknana sína.

Útboð Seðlabankans á krónum munu því segja takmarkaða sögu um fáein augnablik á gjaldeyrismarkaði, ef markað skyldi kalla.

Seðlabankamenn verða því litlu nær um hvað aflandskrónueigendur ætla sér í nánustu framtíð. Og jafnvel þótt þeir vissu það hefðu þeir ekki glóru um hvað krónueigendur í landinu sjálfu ætla sér eða þá þeir sem hugsanlega vilja koma með fjármuni til landsins þegar hin eyðileggjandi höft verða loks aflögð.