Föstudagur 23. mars 2012

Vefþjóðviljinn 83. tbl. 16. árg.

Ráðist að lögreglustöðinni við Hverfisgötu í nóvember 2008.
Ráðist að lögreglustöðinni við Hverfisgötu í nóvember 2008.

Þeir sem nú vaða uppi á Alþingi og ráðuneytum telja sig byltingarmenn. Þeir telja sig hafa komist til valda með byltingu og sjá ekkert athugavert við það. Þeir sáu ekkert athugavert við að menn grýttu þinghúsið, dómkirkjuna og ýmsar opinberar stofnanir til að knýja lögmæta ríkisstjórn til að fara frá. Þeir sáu ekkert að því að reyna að gera þingið óstarfhæft með hávaða utanhúss. Þeir sáu ekkert að því að ráðast að lögreglumönnum, gera aðsúg að þingmönnum, berja bifreiðar, brjóta rúður og gera tilraun til að brjóta niður hurð lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu með stórum bjálka.

En þeir ærðust þegar reynt var að sækja til saka þó ekki væri nema örfáa þeirra sem taldir voru hafa ráðist að þinginu.

Þeir þrá að breyta stjórnarskránni, enda ver hún eignarétt og atvinnufrelsi og býr eðlilega umgjörð að sæmilega frjálsu þjóðfélagi. Þess vegna verður að umturna henni. Verðmæti í einkaeign ætla þeir að leggja undir ríkið, þótt ríkið verði auðvitað kallað „þjóðin“ rétt á meðan breytingarnar verða keyrðar í gegn. Allt er leyfilegt í baráttu við stjórnarskrána. Jafnvel ógildar kosningar eru í raun látnar standa og menn sem þykjast vera baráttumenn fyrir bættu stjórnarfari láta á sama tíma eins og „stjórnlagaráð“ sé samkoma sem nokkur maður geti borið virðingu fyrir.

Mesta ákefðin fer þó í að reyna að jafna reikninga við pólitíska andstæðinga sína. Ákærur og fortíðarrannsóknir eru brýnustu verkefnin. Þegar stefndi í að ákæran á hendur Geir Haarde yrði afturkölluð þá lá við að leggja þyrfti nokkra þingmenn inn, svo mikið fékk það á þá. 

Þetta er ekkert nýtt. Byltingarmenn gefa ekkert fyrir réttarríkið eða einstaklingana sem þeir níðast á. 

Í einni óhugnanlegustu bók sem út kom á síðustu öld, eftir einn ritfærasta Íslending aldarinnar, má sjá glögga innsýn í hugarheim byltingarmannsins, sem ætlar að knýja fram „breytingarnar“ sínar, hvað sem tautar og raular. Halldór Kiljan Laxness fór til Sovétríkjanna og kynnti sér ástand mála. Hann fylgdist með réttarhöldum Stalíns yfir blásaklausum mönnum sem leiddir voru út og skotnir í nafni byltingarinnar. Svo fór hann heim og skrifaði Gerska ævintýrið handa Íslendingum. Hann kvaðst auðvitað vera alveg á móti dauðarefsingum, en…

Málaferlin gegn Blökk hægrimanna og trotskista 1938, „Búkharínsmálin“ – ég lít á þau fyrst og fremst sem sjónleik í heimssniði, ægilegan sorgarleik ef vill. Sú lifandi mynd baráttunnar milli pólitískra höfuðafla, sem málaferlin brugðu ljósi yfir, er í heild sinni svo hrikaleg, í hrikaleik sínum svo náskyld náttúruöflunum sjálfum, að atriði eins og siðferðileg eða lögfræðileg „sekt“ samsærismannanna, eða sú persónulega refsíng sem beið þeirra, verður í raun réttri smámunir sem ekki freista til kappræðu. Þegar svo djarft er teflt um örlög 170 miljón manna, og raunar alls heimsins, eins og blökkin gerði, þá fara ræður um „sekt“ að fá býsna smáborgaralegan hljóm, sömuleiðis býsnanir út af réttlátum eða ránglátum aftökum.