Vefþjóðviljinn 82. tbl. 16. árg.
Nokkrum dögum eftir að Björgvin G. Sigurðsson tók við sem viðskiptaráðherra, í lok maí 2007, mætti hann sperrtur í viðtal á Stöð 2 um nýfengna upphefð. Björgvin var spurður um helstu verkefni viðskiptaráðuneytisins. Hann svaraði:
Þetta ráðuneyti hefur með að gera allt sem kemur að fjármálastarfsemi í landinu, bankamálin.
Allt!
Ja nema væntanlega þessi atriði sem Helgi Hjörvar, Magnús Orri Schram, Oddný G. Harðardóttir, Skúli Helgason og Valgerður Bjarnadóttir vilja varpa Geir H. Haarde í fangelsi fyrir – en alls ekki Björgvini samflokksmanni sínum.
Á dögunum voru svo á Alþingi greidd atkvæði um tillögu Bjarna Benediktssonar þess efnis að draga til baka ákæru þingsins á hendur Geir H. Haarde. Við það tækifæri sá Björgvin G. Sigurðsson fyrrverandi viðskiptaráðherra og núverandi formaður allsherjarnefndar Alþingis sér ekki fært að sinna þingstörfunum sem hann var kjörinn til.
Viðskiptaráðherrann sem sagði drjúgur að ráðuneyti sitt hefði „með að gera allt sem kemur að fjármálastarfsemi í landinu“ fór í felur þegar annar maður var dreginn fyrir dóm vegna mála sem hann sjálfur hafði allt með að gera.