Þriðjudagur 27. mars 2012

Vefþjóðviljinn 87. tbl. 16. árg.

Hvor neðangreindrar fyrirsagnar hljómar betur fyrir norrænu velferðarstjórnina? 

Tekjudreifing aldrei jafnari síðan mælingar hófust 2004.

eða

Kjör hinna verst settu hafa ekki verið lakari síðan mælingar hófust árið 2004.

Stefán Ólafsson fagnar því að ráðstöfunartekjur hinna fátækustu hafa lækkað um 20% frá árinu 2008.
Stefán Ólafsson fagnar því að ráðstöfunartekjur hinna fátækustu hafa lækkað um 20% frá árinu 2008.

Báðar fullyrðingarnar eru sannar. Hvora fyrirsögnina er líklegt að Hagstofa ríkisins velji þegar hún býr til frétt um niðurstöðu nýrrar lífskjararannsóknar? Jú rétt, auðvitað þá sem hljómar betur fyrir yfirboðarana.

Í sjálfu sér væri þetta ekki stórkostlegt vandamál ef hér fyndist snefill af sjálfstæðri fjölmiðlun. En auðvitað lepja allir þessar upplýsingar upp sem jákvæðar og kóróna svo vitleysuna með því að láta Stefán Ólafsson prófessor klappa ríkisstjórninni á bakið fyrir vel unnin störf.

Árið 2008 voru ráðstöfunartekjur þess fimmtungs þjóðarinnar sem lægstar tekjur hefur rúmlega 176 þúsund að meðaltali á einstakling miðað við verðlag 2010. Árið 2011 voru ráðstöfunartekjur sama hóps rúmlega 143 þúsund að meðaltali á sama verðlagi. Kjör þessa hóps hafa því rýrnað um um það bil 20%.  

Ætli manninum sem hefur 143 þúsund í ráðstöfunartekjur, en hafði 176 áður finnist hann hafa það betra nú en áður?

Ætli hann orni sér við þá tilhugsun að ráðstöfunartekjur hinna tekjuhæstu hafa lækkað hlutfallslega meira?