Miðvikudagur 28. mars 2012

Vefþjóðviljinn 88. tbl. 16. árg.

Það er kominn listi yfir konur sem eru &#8222tilbúnar&#8220 til að setjast í stjórn fyrirtækja. En hvar er listinn yfir frúrnar sem eru &#8222tilbúnar&#8220 til að setjast undir stýri á leigubíl, þar sem kynjahlutföll eru mjög ójöfn?
Það er kominn listi yfir konur sem eru &#8222tilbúnar&#8220 til að setjast í stjórn fyrirtækja. En hvar er listinn yfir frúrnar sem eru &#8222tilbúnar&#8220 til að setjast undir stýri á leigubíl, þar sem kynjahlutföll eru mjög ójöfn?

Eins og menn vita þá hefur undanfarin misseri verið slíkt ástand í þjóðfélaginu að hvers kyns þvættingur er tekinn góður og gildur. Þess sér þá auðvitað stað á Alþingi eins og annars staðar, og þar eru jafnt og þétt lögfestar pólitískar kreddur þeirra sem náðu völdum í kjölfar óeirða veturinn 2008-2009.

Meðal slíkra nýrra lagafyrirmæla eru þau sem taka völdin af eigendum fyrirtækja og skipa þeim að velja sér stjórnarmenn eftir kynferði. Næsta skref verður svo væntanlega að mæla fyrir um hlutfall fatlaðra, trúlausra, múslima og grænmetisætna í hverri fyrirtækisstjórn, því varla getur löggjafinn látið sér nægja að hugsa einungis um konur þegar kemur að stjórnarsetu í fyrirtækjum.

En hvers vegna ætli menn hafi knúið fram lagafyrirmæli sem taka sérstaklega á stjórnarsetu í fyrirtækjum? Tökum sem dæmi annað svið, þar sem ríkið skiptir sér þegar verulega af. Enginn má gera út leigubifreið nema fá til þess leyfi hjá hinu opinbera. Þar væri nú auðvelt að setja reglur um kynjahlutföll. Allir vita að kynjahlutföll í leigubílstjórastéttinni eru mjög ójöfn. En engum virðist detta í hug að heimta að þar verði sett skilyrði um hárnákvæm kynjahlutföll. Þar birtast engar auglýsingar frá konum sem segjast vera „tilbúnar“ að taka að sér að keyra drukkna samlanda sína heim á nóttunni fyrir lítinn pening sem mestallur fer í eldsneyti.

Það eru heldur engar reglur settar um kynjahlutföll við sorphirðu. Engar konur í auglýsingum sem segjast vera tilbúnar þar. Engin nauðsyn virðist á réttum kynjahlutföllum þar.

En þær birta nöfnin sín í auglýsingum, frúrnar sem eru alveg til í að sitja mánaðarlegan stjórnarfund fyrir fínan pening. Þær eru alveg „tilbúnar“ í það.

Eigendur fyrirtækja beygja sig hugsanlega undir nýju ofstækislögin um kynjahlutföll í fyrirtækjum. En þeir ættu að gæta þess að ráða aldrei í nokkurt starf neinn þann sem reynir að troða sjálfum sér fram í skjóli þessara ógeðfelldu lagafyrirmæla. Og þegar núverandi sturlunarástandi íslensks þjóðlífs linnir, þá verða þessi ofstækislög á meðal þeirra fjölmörgu nýju laga sem afnema þarf strax í upphafi nýs kjörtímabils.