Föstudagur 16. mars 2012

Vefþjóðviljinn 76. tbl. 16. árg.

Meðal tíðinda í hugmyndabaráttunni á Vesturlöndum á síðasta ári var tillaga frá ungum vinstri grænum um að ríkið tæki að sér alla matvöruverslun í landinu.

Sindri Geir Óskarsson formaður ungra vinstri grænna á Akureyri leiddi baráttuna.

Ég vil að á Íslandi sé aðeins starfrækt ein matvöruverslun og að hún sé á vegum ríkisins. Engin samkeppni bara skýrar reglur og lýðræðisleg stjórnun. Þetta er hugmynd sem má útfæra á ýmsa vegu og ég er viss um að hún hafi fleiri kosti en galla. …

Með ríkisreknum matvöruverslunum væri hægt að hafa mikil áhrif á neyslumynstur Íslendinga en mér þykir það frekar óheilbrigt.

Nú er ekki fyrir hvern sem er að ímynda sér hvernig svona ríkisverslun myndi starfa. En svo heppilega vill þó til að norræna velferðarstjórnin rekur einmitt nýlenduvöruverslun í flugstöðinni í Keflavík, svonefnda Fríhafnarverslun.

Til að bæta „neyslumynstur Íslendinga“ selur þessi ríkisverslun vart ætan bita nema það sé öl, gos eða sælgæti. Og svo auðvitað tóbak.

Á dögunum átti góðvinur Vefþjóðviljans úr einu ráðuneytinu  leið um þessa lýðræðislegu verslun ríkisins. Hann var á leið á mikilvægan aðlögunarfund í Brussel um stöðu úlfa og skógarbjarna í fjölmenningarsamfélaginu. Það þykir betra að ljúka þeim kafla aðildarviðræðna áður en kemur að sjávarútvegi. 

Þar sem hann vildi nýta dagpeningana sem best keypti hann sitthvað til heimilisins í hinni rómuðu skattfrjálsu ríkisverslun.

Þegar heim var komið gerði hann sér svo ferð í Bónus til að kanna hagnaðinn af því að versla skattfrjálst við ríkið.

Þá kom í ljós að flestar vörurnar voru dýrari í ríkisversluninni en í Bónus þrátt fyrir að ekki sé innheimtur virðisaukaskattur í fríhöfninni. Af 12 vörum í körfunni voru 9 dýrari í fríhöfn ríkisins en í Bónus.

Maðurinn tapaði því á þessum viðskiptum við ríkisverslunina. Um leið varð ríkið af virðisaukaskattinum.