Laugardagur 17. mars 2012

Vefþjóðviljinn 77. tbl. 16. árg.

Nýjasta hefti Þjóðmála komið í Bóksölu Andríkis. Þar má einnig fá fyrri tölublöð og áskrift.
Nýjasta hefti Þjóðmála komið í Bóksölu Andríkis. Þar má einnig fá fyrri tölublöð og áskrift.

Vorhefti tímaritsins Þjóðmála er komið út, íslenskri umræðu til bóta en þeim freku vinstrimönnum, sem vilja ráða henni einir, til armæðu. 

Í vorheftinu kennir sem áður margra grasa. Örvar Arnarson skrifar grein um þá tegund af stjórnmálamönnum, sem spratt upp eftir bankahrunið, sem hann kallar „krúttin“ og eitthvað-annað-liðið, þau sem „sveifla um sig heilagri skikkju með frösum á borð við „vinnum saman að lausn handa þjóðinni“, „málsvarar umhverfis og náttúru“ og móðgast ef einhver dirfist að skilgreina þau til hægri eða vinstri.“ Þeir sem endilega vilja fá nýja vinstristjórn munu ókyrrast yfir þessari grein, enda er hernaðaráætlun vinstrimanna sú, nú þegar þeir sjá fram á mikið fylgistap yfirlýstu vinstriflokkanna, að krútta- og frasaframboð nái að safna saman nógu mörgum þeirra, sem ætla ekki að kjósa vinstriflokk aftur, til að hægt verði að mynda vinstristjórn eftir kosningar. Þannig stýrir Samfylkingin Reykjavíkurborg með þrjá borgarfulltrúa af fimmtán og þannig vilja vinstrimenn halda völdum á þinginu annað kjörtímabil. Örvar Arnarson tekur dæmi um málflutning „krúttanna“ af heimasíðu væntanlegs flokks Guðmundar Steingrímssonar og eigenda Besta flokksins. Þar segir:

Nú er kominn tími til að stofna stjórnmálaflokk eða bandalag eða hóp eða afl eða klúbb eða hreyfingu eða samtök eða party eða bara eitthvað sem leggur áherslu á að stunda uppbyggileg og gefandi stjórnmál, nútímaleg og þjónandi fyrir alls konar fólk á Íslandi. Við viljum vera opinn vettvangur eða farvegur fyrir vel meinandi einstaklinga til þess að hafa áhrif á samfélag sitt. Við viljum grænt hagkerfi sem skapar fullt af fólki atvinnu, góða skóla og heilbrigðiskerfi, arðbæra og sjálfbæra nýtingu auðlindanna okkar, stöðugt efnahagslíf, óttalausa samvinnu við aðrar þjóðir, víðsýni, lýðræði, frjálslyndi, frið og mannúð.

Að sjálfsögðu er margt fleira í Þjóðmálum. Einar Benediktsson sendiherra fjallar um öryggi Íslands, þróunina á norðurskautinu, stóraukin umsvif Kínverja og kínverska hersins og horfir í því samhengi til fyrirætlana Kínverja nokkurs um stórfelld landakaup á Íslandi, í því skyni að setja upp golfvöll á hæsta og kaldasta byggða bletti landsins; Ásgeir Jóhannesson fjallar um bandaríska stjórnmálamanninn Ron Paul og þau miklu áhrif sem hann kann að hafa á þróun bandarískra stjórnmála, Hannes H. Gissurarson rekur mikla örlagasögu tveggja einstaklinga sem fluttust hingað til lands á fyrri hluta síðustu aldar, Jón Ríkharðsson sjómaður skrifar um vegsemd og vanda Sjálfstæðisflokksins, Björn Bjarnason um forystuleysi Jóhönnu Sigurðardóttur og ritstjóraspjall Jakobs F. Ásgeirssonar er bragðmikið að vanda.

Þeir sem vilja andæfa vinstrislagsíðu íslenskrar dægurumræðu, þar sem frjálslynd og borgaraleg gildi eru fótum troðin, kaupa og lesa Þjóðmál. Þau má fá í Bóksölu Andríkis, bæði áskrift og stök hefti frá upphafi útgáfu þeirra fyrir átta árum.