Laugardagur 10. mars 2012

Vefþjóðviljinn 70. tbl. 16. árg.

Seðlabankinn kaupir evrur á 240 krónur og selur á 164 krónur.
Seðlabankinn kaupir evrur á 240 krónur og selur á 164 krónur.

Á dögunum efndi Seðlabanki Íslands til gjaldeyrisútboðs þar sem hann aflaði sér erlends gjaldeyris fyrir krónurnar sem hann gefur út. Í útboðinu keypti hann um 140 milljónir evra á genginu 240 krónur fyrir evru. Á þriðjudaginn tók Seðlabankinn svo um 9% af þessum evrum og seldi þær aftur fyrir krónur. Þar fékk hann um 164 krónur fyrir hverja evru. Hann tapaði 76 krónum á hverri evru sem hann keypti og seldi aftur. Heildartap seðlabankans á þessum viðskiptum var um 900 milljónir króna. 

Hvað er eiginlega búið að koma íslenskum skattgreiðendum í hérna? Verður framhald á því að banki í þeirra eigu kasti fjármunum út um gluggann á þennan hátt?

Hér virðist um að ræða einhvers konar vítahring sem menn komu sér í með gjaldeyrishöftunum. Eins og svo mörg önnur inngrip ríkisins reynast þau illa. Lækningin er verri en sjúkdómurinn.

En þarna liggur kannski lausn á einu erfiðu máli í samfélaginu, launadeilu Más Guðmundssonar við seðlabankann.

Már fær greiddar svona 1.300 þúsund krónur í laun en vill fá 1.700 þúsund. Ef hann selur bankanum þessar 1.300 þúsund krónur fyrir evrur á genginu 164 þá á hann 7.927 evrur. Svo selur hann bankanum evrurnar á genginu 240 og á þá 1.900 þúsund krónur.

Þarna væri stefnu bankans fylgt og Már fengi ríflega sitt. Allir ánægðir. Ja, nema skattgreiðendur en þeir eru hvort eð er aldrei spurðir.