Vefþjóðviljinn 69. tbl. 16. árg.
Það er spurt og spurt um það sama í Landsdómi. Aftur og aftur. Vitni eftir vitni. Dag eftir dag.
Hvernig hefðu menn getað komið í veg fyrir gjaldþrot einkabanka?
Hefði Geir getað það? Seðlabankinn? Fjármálaeftirlitið? Samráðshópurinn? Viðskiptaráðherrann? Vegagerðin?
Hefði fjármálaeftirlit með 5.000 starfsmenn getað komið bönkunum á réttan kjöl?
Þessar þráspurningar um þetta eru annars vegar óskhyggja. Ef það væri þannig að embættismenn gætu með handleiðslu sinni stýrt fyrirtækjum í örugga höfn hvers vegna gekk ekki atvinnulífið í Austur-Evrópu fyrir 1990 betur en raun bar vitni? Þar voru nær allir opinberir eftirlitsmenn. Og hvers vegna hafa opinberir lánasjóðir á Íslandi, allt frá Útvegsbankanum til Íbúðalánasjóðs og Byggðastofnunar, þá ekki gengið alveg ljómandi vel?
Hins vegar er þessi krafa um handleiðslu eftirlitsmanna þvert á gangverk markaðarins. Þótt gjaldþrot séu á ýmsan hátt hvimleið eru þau engu að síður nauðsynlegur hluti af markaði, rétt eins og velgengni og hagnaður. Þessi möguleiki þarf hið minnsta að vera til staðar.
Það er hins vegar rétt að gjaldþrot banka eru erfiðari viðureignar en gjaldþrot margra annarra félaga. En það er vegna hinna margvíslegu tenginga milli banka og ríkisvaldsins. Ríkisvaldið hefur til að mynda verið að skipta sér af því hvort og hvernig sparifjáreigendur tryggja innstæður sínar í bönkum. Það hefur haft hörmulegar afleiðingar í för með sér. Hvers vegna í ósköpunum eru fjármagnseigendur ekki látnir kaupa sínar tryggingar sjálfir? Húseigendur, bíleigendur og jafnvel eigendur gæludýra sjá sjálfir um sínar tryggingar. Hví ekki þeir sem eru loðnir um lófana? Ríkisvaldið hefur einnig tekið að sér að vera einhvers konar lánveitandi til þrautavara fyrir bankana. Það þýðir, eins og dæmin sanna, að skattgreiðendur eru í stórhættu að fá reikninginn fyrir tapi banka.