Vefþjóðviljinn 68. tbl. 16. árg.
Þór Saari þingmaður Hreyfingarinnar hefur undanfarna daga gert einhvers konar tilraun til að „skilja“ ofbeldi með því að leita í „hrunið“ eða „ástandið í samfélaginu“ eða „aðgerðaleysi stjórnvalda.“ Síðast viðraði Þór þessi sjónarmið í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi þar sem hann sagði „að miðað við stöðu mála, sérstaklega hvernig yfirvöld hafa tekið á málum, þá er það ekkert illskiljanlegt eða óskiljanlegt fyrir mér að einhverjir skuli á endanum grípa til örþrifaráða.“
Þór hefur einnig haldið því að „ótal manns haf[i] í örvæntingu tekið eigið líf“ vegna fjármálakreppunnar. Ekkert virðist þó styðja þessa kenningu.
Svonefnd búsáhaldabylting er mesta ofbeldisalda sem gengið hefur yfir Ísland í áratugi. Fram til ársbyrjunar 2009 höfðu fáir núlifandi Íslendinga orðið vitni að því að tugir landa þeirra færu um í hópum með ofbeldi og skemmdarverkum. Þau 99% þjóðarinnar sem hlýddu ekki herútboði Ríkisútvarpsins og tóku ekki þátt ofbeldinu eða öskurkeppni Harðar Torfasonar á Austurvelli horfðu á þetta í forundran. Hreyfingin hefur skilgreint sig sem afkvæmi búsáhaldabyltingarinnar.
Allt er þetta fremur nöturlegt og verður ekki betra þegar litið er á slettuna sem Hreyfingin hefur valið sér sem einkennismerki. Hvað ætli hún eigi að tákna?