Vefþjóðviljinn 67. tbl. 16. árg.
Íslenskir fjölmiðlamenn eru eins og þeir eru. Núna eru þeir bálreiðir yfir því að fá ekki að senda réttarhöld í landsdómi út beint í útvarpi og sjónvarpi.
Í 122. grein laga um meðferð sakamála segir skýrt: „Hvert vitni skal að jafnaði prófa sér án þess að önnur vitni hlýði á. Að kröfu aðila getur dómari þó ákveðið að vitnið verði samprófað við ákærða eða annað vitni.“
Þessi regla er skýr og auðskilin. Maður, sem ber vitni fyrir dómi, má ekki hafa heyrt hvað önnur vitni hafa sagt. Þess vegna er þessi skýra regla sett og frá henni gerð þessi eina undantekning, ef aðili og dómari sammælast um að tiltekin vitni verði samprófuð, sem er nær óþekkt að fallist sé á.
Þegar bannað er í lögum að vitni hlýði á framburð annarra vitna, þá kemur auðvitað ekki til greina að vitnaleiðslum sé sjónvarpað og væntanleg vitni geti setið heima í stofu og fylgst með öllu.
Reyndar er verulega hæpið, svo ekki sé sterkar til orða tekið, að heimilt sé að leyfa blaðamönnum að „tísta“ spurningar og svör úr dómsalnum, en hugsanlega hafa dómendur ekki treyst sér í moldviðrið sem hlytist af að banna það. En vegna þess hversu fjölmiðlar segja nákvæmlega frá vitnisburði manna, þá hafa þeir dregið mjög verulega úr gildi framburðar þeirra vitna sem síðar koma, og því mun frekar sem vitnin koma seinna. Vegna þessa er til dæmis nær ómarktækt með öllu ef síðari vitni taka upp á því að svara framburði fyrri vitna. Því hafa fjölmiðlamenn þó náð fram með ákafa sínum.
Þessi æsingur fjölmiðlamanna stafar líklega meðal annars af því að margir misskilja landsdóm. Málsmeðferð fyrir landsdómi er einfaldlega sakamál sem snýst um ákveðin ákæruatriði. Ekkert annað, þótt hinn ákærði sé Geir Haarde. Landsdómsmeðferð er ekki „uppgjör við hrunið“ eða eitthvert færi á að „fá allar upplýsingar“, eins og sumir virðast halda, en þessi misskilningur hefur eflaust fengið marga til að styðja það að landsdómur yrði kallaður saman. Á netinu má víða sjá mikinn spenning fyrir því að spurt verði um hitt og þetta, sem ekki er sakarefni í málinu, og getur því aldrei komið til tals. Dómsforseta bæri að stöðva allt slíkt þegar í stað.
Annar misskilningur fjölmiðlamanna er þegar þeir hver á fætur öðrum vitna í 11. grein sakamálalaganna sem heimilar að veita undanþágu frá myndatökubanni við sérstakar aðstæður. Þar er ekki átt við samfelldar útsendingar heldur staka myndatöku eða hljóðupptöku, svo sem í upphafi þinghalds. Þessi heimild haggar ekki á neinn hátt banninu við því að vitni heyri framburð annarra vitna áður en það vitnar sjálft.
Svo það sé endurtekið: Í lögum er bann við því að vitni, sem á eftir að koma fyrir dóm, geti fylgst með framburði annarra vitna. Strax þess vegna eru beinar útsendingar útilokaðar.
Þeir sem ekki skilja þessi atriði, hversu mikið ætli þeir skilji í flóknari atriðum málsins?