Þriðjudagur 6. mars 2012

Vefþjóðviljinn 66. tbl. 16. árg.

Undanfarna tvo ársfjórðunga hefur krónan veikst um 6%.

Hinir svonefndu Áfram-Íslandsmenn, sem studdu síðustu Icesave ánauðina með ráðum og dáð, hlógu dátt þegar sett var upp sviðsmynd þar sem gert var ráð fyrir að íslenska krónan myndi veikjast um 2% á ársfjórðungi til ársins 2016. Vegna skuldbindinga í Icesave III hefði slík veiking haft hörmuleg áhrif á efnahag landsins.

Áfram-Íslandsmenn héldu því fram að þar sem krónan væri í höftum gæti hún vart veikst, því seðlabankinn hefði einhverja dularfulla leið til að stýra verði hennar. Þá vaknar auðvitað sú spurning hvers vegna seðlabankinn skráir ekki krónuna bara á eitthvað hagstætt gengi fyrir land og lýð. Venjuleg heimili myndu alveg þiggja að ekki þyrfti að gefa nema svona 80 krónur fyrir dalinn í stað 125. Þá færi pakkinn af morgunkorni úr 500 í 300 krónur.

Áfram-Íslandsmenn hafa hins vegar bæði fyrr og síðar talið krónuna ónýtan gjaldmiðil og haldið ófáar ræðurnar um að krónan hafi veikst um 99% gangvart dönsku krónunni frá myntbreytingu.

En þeir gerðu sumsé hlé á þeim málflutningi þegar sannfæra átti landsmenn um að gangast í ábyrgð fyrir skuldum einkabanka.