Vefþjóðviljinn 65. tbl. 16. árg.
Það er lýsandi fyrir ástandið á Íslandi, að í dag hefjist aðalmeðferð í pólitískum réttarhöldum gegn fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins.
Það er skilyrði fyrir því að mál sem þetta sé rekið, að alþingi gefi út ákæru og haldi henni til streitu.
Meirihluti alþingismanna segist andvígur því að mál þetta sé rekið.
Engu að síður á aðalmeðferð að fara fram í dag.
Og enginn segir neitt.
Fæstir fjölmiðlar fjalla af neinu viti um framgöngu þingmanna síðustu vikur eða allt sem þeir lögðu á sig til þess að ákæra, sem þeir segjast vera alveg á móti, haldi samt áfram. Málflutninginn sem fór í ótal hringi frá einni umræðu til annarrar. Hvernig menn, sem sögðust vera glerharðir gegn hinni „lítilmannlegu“ ákæru og sögðst fagna því að komin væri fram tillaga um að hún verði afturkölluð, greiddu síðan atkvæði með því að afturköllunartillögunni yrði vísað frá.
Og þannig má lengi telja. Ríkisfjölmiðlarnir telja þetta allt sjálfsagt. Þar er engin úttekt gerð á þessu. Þar þarf enginn ákærusinni að standa fyrir máli sínu.
Og svo ætla menn bara að halda aðalmeðferð eins og ekkert sé. Vitandi það að meirihluti alþingis er á móti ákærunni, sem þó er rekin í nafni alþingis. Vitandi það að skýringin á því að meirihlutinn gerir ekki formlega samþykkt um málið, er sú að einhvern tímann næsta vetur getur hann þurft að kaupa Þór Saari.
Mikið er þetta allt dæmigert fyrir ríkisstjórnarár Jóhönnu Sigurðardóttur.