Miðvikudagur 29. febrúar 2012

Vefþjóðviljinn 60. tbl. 16. árg.

Jóhanna lýsir því ítrekað yfir að hún telji ákæruna tilefnislausa. Mun hún nota atkvæði sitt til að halda tilefnislausri ákæru til streitu, bara til að friða Þór Saari? Þannig getur forsætisráðherra lýðveldisins ekki hagað sér.
Jóhanna lýsir því ítrekað yfir að hún telji ákæruna tilefnislausa. Mun hún nota atkvæði sitt til að halda tilefnislausri ákæru til streitu, bara til að friða Þór Saari? Þannig getur forsætisráðherra lýðveldisins ekki hagað sér.

Þegar meirihluti Alþingis samþykkti ákæru á hendur Geir H. Haarde sagðist Jóhanna Sigurðardóttir vera mjög ósátt við þá niðurstöðu. Spurð um ákærusamþykkt Alþingis sagði hún í fréttum Ríkissjónvarpsins: „Mér þykir það mjög miður vegna þess að ég tel að ekkert tilefni hafi verið til þess“.

Þegar greidd voru atkvæði um hvort vísa bæri frá tillögu um að ákæran yrði dregin til baka, sagði Jóhanna Sigurðardóttir þegar hún gerði grein fyrir atkvæði sínu: „Forseti. Eins og ég rakti í þinginu á sínum tíma taldi ég ekki nægjanlegt tilefni til að stefna fyrrverandi ráðherrum fyrir landsdóm. Ég sagði því nei við tillögum um ákæru. Sú afstaða mín er óbreytt.“

Nú gefst Jóhönnu Sigurðardóttur tækifæri til að sýna þjóðinni hvort hún meinti eitthvað með þessum orðum sínum, þá og nú. Hún taldi ekkert tilefni til ákærunnar. Sú skoðun hennar er óbreytt. Jóhanna Sigurðardóttir telur því að ákæran sé tilefnislaus.

Stjórnarliðar fullyrða nú hver um annan þveran að ekkert nýtt hafi komið fram í landsdómsmálinu. Sú er einmitt niðurstaða nefndarálits þeirra í málinu. Ekkert nýtt hefur komið fram.

Meira að segja fulltrúar stjórnarflokkanna í stjórnskipunarnefnd þingsins viðurkenna nú að Alþingi sé heimilt að afturkalla eigin ákæru. Sú afsökun, að málið sé úr höndum þingsins, dugar ekki lengur. Nú reynir á hvort sú mótbára var höfð uppi af einlægni, eða hvort hún var bara skálkaskjól.

Þeir sem telja að ekkert nýtt hafi komið fram í málinu, og ekkert hafi breyst, hljóta að greiða atkvæði með sama hætti nú og þegar ákæran var samþykkt. Þeir sem hafa hins vegar skipt um skoðun, í hvora átt sem er, greiða svo auðvitað atkvæði eftir því sem þeir nú telja. Við það er ekkert að athuga.

Jóhanna er hluti af því Alþingi sem fer með ákæruvaldið í málinu. Nú verður hún, með atkvæði sínu sem þingmaður, að svara því hreint og klárt hvort láta ber tilefnislausa ákæru á hendur einstaklingi standa. Ef Jóhanna Sigurðardóttir meinti í raun eitthvað með orðum sínum þegar ákæran var samþykkt og þegar greidd voru atkvæði um frávísunartillöguna, þá lítur hún svo á að ákæran sé tilefnislaus. Ákæranda er ekki heimilt að láta ákæru, sem hann telur tilefnislausa, standa. Þetta er ekkert flóknara en það.

Úr því sem komið er þá á Jóhanna Sigurðardóttir engan annan kost en að standa með tillögu um afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde. Hún getur hvorki lagst gegn henni né reynt með atkvæði sínu að hindra að tillagan hljóti efnismeðferð. 

Hvað ætti eiginlega að segja um siðferði þess alþingismanns, sem telur útgefna ákæru Alþingis tilefnislausa, en reynir að koma í veg fyrir að sú ákæra verði afturkölluð? Dettur einhverjum í hug að lagt verði á einstakling að verja sig fyrir ákæru, sem ákærandinn telur tilefnislausa?

 Og sama má segja um aðra þingmenn sem greiddu atkvæði gegn ákærunni. Sú afstaða þeirra hlýtur að vera óbreytt, nema þeir telji eitthvað hafa komið fram síðar sem geri það að verkum að þeir séu nú hlynntir ákæru. Menn eins og Guðbjartur Hannesson, Guðmundur Steingrímsson, Kristján Möller og Róbert Marshall svo nokkrir séu nefndir. Ætlar einhver þeirra að standa fyrir því að einstaklingur verði ákærður fyrir dómi, á grundvelli þeirra atkvæðis, og þurfi þar að verjast ákæru sem þeir styðja ekki?