Þriðjudagur 28. febrúar 2012

Vefþjóðviljinn 59. tbl. 16. árg.

Lilja Mósesdóttir hagfræðingur og alþingismaður var til viðtals (mínútu 32) í Harmageddon á X-inu 23. febrúar. Þar upplýsti hún að til þess að markaður væri „frjáls“ þyrfti hann að uppfylla sjö skilyrði. Á meðal skilyrðanna væru að seljendur væru mjög margir og neytendur hefðu fullkomnar upplýsingar um þá kosti sem í boði væru.

Þetta er auðvitað vitleysa en þó upplýsandi hjá Lilju.

Það eru engin skilyrði um það sem fer fram á markaði til að hann teljist frjáls. Markaðurinn þarf aðeins að vera laus við afskipti ríkisins, hvers kyns höft, tolla, skatta, niðurgreiðslur, ríkisstyrki og gjöld sem mismuna framleiðendum. Á frjálsum markaði geta verið eitt eða fleiri fyrirtæki sem bjóða sömu þjónustu eða vörur. Eða bara ekkert fyrirtæki! Neytendur á algerlega frjálsum markaði geta hæglega verið illa upplýstir um það sem þeir eru að kaupa. Annaðhvort hafa þeir ekki aðgang að upplýsingum eða kæra sig ekki um að eyða tíma sínum í af afla þeirra. Þeir hafa kannski eitthvað þarfara að gera en afla sér upplýsinga um ódýrar vörur sem þeir kaupa sjaldan.

Almennur garðeigandi endurnýjar garðslöngu sína á 15 ára fresti og hún kostar kannski um 990 krónur. Heldur Lilja hagfræðingur að markaður með garðslöngur sé ekki frjáls nema hinn almenni garðeigandi afli sér sífellt fullkominna upplýsinga um verð, litaúrval og gæði slangna hjá óendanlega mörgum sölubúðum?

Frjáls markaður tryggir heldur engum velgengni en gefur mönnum kost á að leita eftir henni. Og allra síst mega menn gera ráð fyrir þeim líki allt sem fer fram á frjálsum markaði. Það er eiginlega best að sætta sig við það frá byrjun að fæst á frjálsum markaði er allra, margt er smekklaust, annað virðist drasl og heimska. En það er til fleira fólk en maður sjálfur og það hefur annan smekk og önnur áhugamál. Umburðarlyndi kemur sér vel á frjálsum markaði.

Líklega er Lilja er rugla saman frjálsum markaði og því sem nefnt er „fullkomin samkeppni“ og er gagnslaust furðuverk úr kennslubókum í hagfræði. Fullkomin samkeppni verður vonandi aldrei til í raunveruleikanum því hún lýsir í raun stöðnun, óendanlega margir selja sömu vöruna til neytenda sem eyða lífi sínu í að kynna sér að hinir óendanlega mörgu seljendur bjóða allir sömu vörurnar á sama verði. 

Fáir hafa gert betri grein fyrir vanköntum á kenningum um „fullkomna samkeppni“ en Israel Kizner prófessor í hagfræði við New York háskóla.