Mánudagur 27. febrúar 2012

Vefþjóðviljinn 58. tbl. 16. árg.

Í morgun birti Andríki tvær auglýsingar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Önnur sýnir þróun kostnaðar við viðskiptaráðuneytið og þær eftirlitsstofnanir með atvinnulífinu sem undir það heyra á árunum fyrir „hrunið“ 2008. Ólíkt því sem ætla má af umræðunni jókst þessi kostnaður verulega á árunum fyrir fram að hruni fjármálakerfisins. Eftirlitið var aukið. Ef Fjármálaeftirlitið væri skoðað sérstaklega væri þessi aukning hlutfallslega enn meiri. Fullyrðingar eins „hér var ekkert eftirlit“ eiga sér því litla stoð.

Hin auglýsingin snýr að þeim lögum sem gilda í landinu. Líkt og Andríki kynnti í auglýsingu fyrir þremur árum var gríðarlegur fjölda laga í gildi um fjármálastarfsemi á árunum fram að falli bankanna. Vart hefur nokkur atvinnugrein í sögunni búið við annað eins regluflóð og fjármálastarfsemi á Vesturlöndum í upphafi 21. aldar. En hvernig var hin almenna þróun í lagasetningu? Var lögum að fjölga eða fækka á þessum tíma? Eins og sjá má á þessari auglýsingu hrannast upp lög í landinu á árunum fyrir hrunið. Lögum fjölgar bæði og einstök lög lengjast. Fullyrðingar eins „hér voru engar reglur“ eru eiginlega fáránlegar þegar horft er upp ókleift lögbergið.

Næstu daga mun þriðja auglýsingin svo birtast en hún sýnir hve stóra sneið af þjóðarkökunni hið opinbera hirti á árunum fyrir hrun. Í ljós kemur að ríki og sveitarfélög höfðu aldrei tekið sér vænni sneið en á árunum 2005 til 2007. Á þessum þremur árum tók hið opinbera nær helming landsframleiðslunnar með sköttum og öðrum ráðum. Þetta voru metár í skattheimtu. Það var því ekki að ástæðulausu sem Háskóli Íslands hélt úti stöðu félagsfræðiprófessors í aukinni skattbyrði. 

Hvaða sögu ætlar Andríki þá að segja með þessu?

Enginn þessara einföldu mælikvarða gefur til kynna að hér hafi verið fylgt sérstakri frjálshyggjustefnu á árunum fyrir fjármálahrunið. Þvert á móti var hið opinbera þanið út á alla kanta; reglur, eftirlit og skattar.

Eins og áður eru þessar auglýsingar og annað starf Andríks fjármagnað með þakkarverðum framlögum lesenda Vefþjóðviljans. Það er einfalt að slást í þann góða hóp sem styður félagið með stöku eða reglulegu framlagi á greiðslukorti eða með millifærslu.