Helgarsprokið 26. febrúar 2012

Vefþjóðviljinn 57. tbl. 16. árg.

Yfirstjórn hrunhallarinnar segir að hún sé aðeins nokkurra milljarða virði. Hún kostaði um 30 milljarða í byggingu.
Yfirstjórn hrunhallarinnar segir að hún sé aðeins nokkurra milljarða virði. Hún kostaði um 30 milljarða í byggingu.

Árið 1997 lögðu áhugamenn um lifandi sígilda tónlist til að byggt yrði hús undir áhugamál þeirra í Laugardal fyrir tólfhundruð milljónir króna. Þá supu menn eðlilega hveljur yfir kostnaðinum og ekkert varð út framkvæmdum.

Tæpum áratug síðar var farið af stað með tólfþúsund milljóna króna byggingu við höfnina. Endanlegur kostnaður við Hörpuna mun hafa verið nær þrjátíuþúsund milljónum. Það er góð tvítugföldun frá hugmyndinni í Laugardalnum.

En hvað ætli þeir sem gerst þekkja til í rekstri útrásarhallarinnar telji hana mikils virði? Væntanlega hverrar krónu sem lögð hefur verið í hana?

Í bréfi sem framkvæmdastjóri Totusar ehf sendi Þjóðskrá Íslands 5. júlí 2011 mótmælir hann harðlega mati Þjóðskrár á virði hússins. Hann telur það alltof hátt!

Fasteignin að Austurbakka 2, sem ber heitið Harpa og er sérhæft tónlistar- og ráðstefnuhús, hefur ekki þekkt gangverð enda byggingin mjög sérstæð og nýbyggð. Auk þess má slá því föstu að, í það minnsta að svo komnu máli, að ekki sé líklegt að nokkurt raunhæft markaðsverð sé til sem endurspeglað geti gangverð byggingarinnar.

Máli sínu til stuðnings nefnir framkvæmdastjórinn að fasteignamat Hofs á Akureyri sé aðeins 180 þúsund krónur á fermetrann á meðan Hörpufermetrinn sé metinn á 540 þúsund krónur.

Framkvæmdastjórinn segir að það sé sanngjarnt og málefnalegt að mat á Hörpunni sé 5,4 til 7,4 milljarðar króna.

Þá hafa skattgreiðendur það. Húsið sem þeir eiga að greiða nær 1 milljarð á ári fyrir í 35 ár er ekki nema nokkurra milljarða virði.

En hvað þykir annars Reykjavíkurborg, öðrum aðaleiganda Hörpu, um að framkvæmdastjóri hennar reyni að lækka skattstofn borgarinnar með þessum hætti? Fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði í Reykjavík er 1,65% af fasteignamati húss og lóðar. Það skiptir því borgina talverðu máli hvort skatturinn er reiknaður af 5, 15 eða 25 milljörðum króna.