Laugardagur 25. febrúar 2012

Vefþjóðviljinn 56. tbl. 16. árg.

Einn froðufrasinn frá árunum fyrir lánsfjárkrísuna er „samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja“. Með því er átt við að einhvers konar skylda hvíli á fyrirtækjum að sinna ýmsu fleiru en að gera sitt besta til að tryggja eigendum arð með góðum rekstri.

Útrásarbankarnir gengu mjög langt í styrkveitingum til alls kyns menningar- og velferðarmála. Vart leið vika án þess að tilkynnt væri um þátttöku þeirra í nýju verkefni, allt frá Kolviði til Nýhil.

Þegar bankarnir fóru um koll var Sigurður Einarsson stjórnarformaður Kaupþings spurður hvað hefðu verið mestu mistökin í rekstri bankans.

Sigurður svaraði því svo í viðtali við Markað Fréttablaðsins 8. nóvember 2008:

„Eftir á að hyggja voru kannski stærstu mistökin að flytja ekki höfuðstöðvarnar úr landi, úr myntsvæði íslensku krónunnar. Það er algjörlega ljóst að hún ber ekki uppi svona starfsemi,“ sagði Sigurður sem bætti því þó við að á sama tíma hefði bankinn verið stoltur yfir því að byggja upp starfsemina í Reykjavík og útvega fjölda fólks vinnu og koma með skatttekjur inn í landið.

Með öðrum orðum: Án „samfélagslegrar ábyrgðar“ gagnvart Íslandi hefði bankinn flutt höfuðstöðvar sínar úr landi.