Föstudagur 24. febrúar 2012

Vefþjóðviljinn 55. tbl. 16. árg.

Eins og allir vita þá eru vinstrimenn miklir fagmenn þegar kemur að rekstri hins opinbera. Þeir eru meðal annars mjög færir og faglegir í mannaráðningum.

Þeir réðu Má Guðmundsson sem bankastjóra Seðlabankans. Hann samdi um launakjör við leynimanneskju í forsætisráðuneytinu á sama tíma og hann var í platviðræðum við voðalega fína nefnd sem búin var til, svo ráðningin væri „fagleg“. Allt tókst þetta svo vel, að nú þremur árum síðar er Már búinn að stefna Seðlabankanum og vill fá launin sem honum voru lofuð.

Svo réðu þeir Gunnar Andersen í fjármálaeftirlitið. Fyrir nokkrum mánuðum gerðist það að helstu útrásarvíkingar landsins kröfðust þess að Gunnari yrði vikið frá störfum. Var þá farið að kaupa álitsgerðir og ekki hætt fyrr en fengin var ein sem sagði að hann yrði bara að hætta. Nú er búið að segja Gunnari upp, en þó er ekki búið að segja honum upp, því hann hefur nú margframlengdan frest til að skila andmælum við ákvörðun sem ekki er búið að taka en þó búið að kynna honum. Hefur sérstaklega verið tekið fram að Gunnari hafi ekki verið sagt upp og jafnframt að ætlast sé til þess að hann vinni ekki út uppsagnarfrestinn.

Eftir að lögfræðiálit hafði fengist um að engin rök væru til að segja Gunnari upp var fengið nýtt frá lögmanni vinstrigrænna. Hann mun hafa komist að því að ekki gangi, huglægt séð, að forstjóri fjármálaeftirlitsins árið 2012 hafi árið 2001 gefið ónákvæmt svar í bréfi. Hver getur verið betur fallinn til þess að gefa stjórn fjármálaeftirlitsins ráð um stjórnsýslumálefni en formaður landskjörstjórnar, sem hélt hina vel heppnuðu kosningu til stjórnlagaþings?