Fimmtudagur 1. mars 2012

Vefþjóðviljinn 61. tbl. 16. árg.

Pósthús verður áfram í Mjóafirði með 37 íbúa en ekki í Breiðholti með tugþúsundir íbúa. Mynd: fjardabyggd.is.
Pósthús verður áfram í Mjóafirði með 37 íbúa en ekki í Breiðholti með tugþúsundir íbúa. Mynd: fjardabyggd.is.

Ríkisfyrirtækið Íslandspóstur hefur tilkynnt að það ætli að loka pósthúsi í Mjódd í Reykjavík. Ríflega 20 þúsund manns búa í hverfunum sem liggja að Mjóddinni. Í Mjóddina liggur straumur fólks á hverjum degi í aðrar verslanir og þjónustu. Fyrir nokkrum árum var verslun annars ríkiseinokunarfélags, ÁTVR, færð úr verslunarkjarnanum í Mjódd yfir í annað húsnæði í grenndinni, flestum sem leið eiga í Mjóddina til ama. 

Í Mjóafirði búa 37 manns og þar er og verður áfram póstafgreiðsla á vegum ríkisfyrirtækisins, opin alla virka daga. 

Pósti verður sem fyrr ekið á bóndabæi landsins. Þegar lífstílsverslun í Reykjavík sendir tilboðsbækling á alla landsmenn gerir pósturinn sér sérstaka ferð á sveitabæi þótt öðrum pósti sé ekki til að dreifa.

Ætli þetta væri lagið á póstdreifingu ef stjórnmálamenn væru ekki með puttana í póstinum?

Nú eru sveitamenn án efa háðari póstþjónustu um margt en borgarbúar. En með rekstri Íslandspósts er ríkið að láta notendur póstsins í þéttbýli niðurgreiða póstsendingar í sveitina. Þetta birtist viðskiptavinum póstsins í þéttbýli bæði í lakari þjónustu og hærra verði en ella væri.

Ef menn vilja á annað borð niðurgreiða póstþjónustu við sveitirnar, sem Vefþjóðviljinn er auðvitað andvígur, væri hreinlegra að gera það með sérstökum lið á fjárlögum en svona tilfæringum innan ríkisfyrirtækis, sem þar fyrir utan er ástæðulaust að ríkið reki.

Þörf á slíkri aðstoð við sveitirnar hefur hins vegar snarminnkað með bættum samgöngum, betri bílum og stórkostlegum framförum í fjarskiptum undanfarin ár.