Fimmtudagur 16. febrúar 2012

Vefþjóðviljinn 47. tbl. 16. árg.

Í upphaflegum gengislánadómum Hæstaréttar, sem mörgum þykja mikið réttlætismál, ákvað rétturinn að víkja til hliðar margra ára framkvæmd lánasamninga, sem tugþúsundir manna höfðu gert, greitt af og þúsundir gert upp, án þess að nokkur hafi talið neitt athugavert við lagagrundvöll samninganna. 

Hversu margir af þeim, sem töldu það geysilega gott framtak hjá Hæstarétti að horfa með stífum gleraugum á vaxtalögin og gera um leið ekkert með athugasemdalausa framkvæmd um margra ára skeið, hafi skömmu síðar orðið mjög hneykslaðir á ákvörðun sama réttar þegar hann ógilti kosningar til stjórnlagaþings, vegna verulegra annmarka á framkvæmdinni?

Hefur nokkur heyrt frasa álitsgjafanna um „sparðatíning“, formhyggju og „lagatækni“, þegar kemur að dómum Hæstaréttar í gengislánamálum? 

Hvernig væri nú, að þeir sem fagna gengislánadómum Hæstaréttar, sýndu nú réttinum þá virðingu að virða líka niðurstöðu hans um stjórnlagaþingskosninguna, og viðurkenna þá um leið fullkomið markleysi „stjórnlagaráðsins“ og „tillagna“ þess?