Vefþjóðviljinn 46. tbl. 16. árg.
Þegar Bjarni Benediktsson lagði fram tillögu sína um að afturkölluð yrði ákæra gegn Geir H. Haarde, urðu góð ráð dýr hjá mörgum. Opinberu ofstækismennirnir áttu svo sem ekki í neinum sérstökum vandræðum, þeir héldu bara áfram í þeim ham sem þeir hafa verið frá 2008 og sumir reyndar lengur. En hjá sumum öðrum varð málið snúnara. Þá langaði svo gjarnan til að Geir yrði settur á sakamannabekk, en vita með sjálfum sér að það er ekki rétt. En svo hóta ofstækismennirnir líka að sprengja stjórnina eða stöðva kvótafrumvörpin, og til þess mega þeir ekki hugsa. Þess vegna varð að finna í hvelli einhverja leið til að réttlæta það að stöðva tillögu Bjarna, án þess þó að sitja sjálfir uppi með þann dóm sögunnar að hafa látið undan ofstækismönnum.
Frumlegasta afsökunin kom hjá Guðmundi Steingrímssyni. Hann hafði greitt atkvæði gegn ákæru á hendur Geir en greiddi nú atkvæði með því að tillögu Bjarna yrði vísað frá. Þegar Guðmundur gerði grein fyrir atkvæði sínu sagði hann:
Ég er almennt á móti því að við ástundum hringlandahátt með stjórnskipuleg málefni á Íslandi. Ég er fylgjandi því að Alþingi reyni eftir fremsta megni að standa við orð sín og fylgja til enda ferli sem það er búið að ákveða að hefja. Það var ákveðið að birta Geir H. Haarde ákæru og taka það mál fyrir landsdóm. Landsdómur hefur komið saman. Hann hefur hafið störf. Þó að ég hafi verið á móti því að ákæra er ég fylgjandi því að við klárum þetta ferli vegna þess að í fyrsta lagi hef ég séð ekki neina ástæðu til þess í ferlinu í sjálfu sér að við hættum við það og líka einfaldlega vegna þeirra sjónarmiða að við ákváðum eitthvað og þá verðum við að kunna að standa við ákvörðunina.
Sá sem vill að Geir Haarde sitji á sakamannabekk, af þeirri ástæðu að þegar menn ákveða eitthvað þá verði þeir að standa við ákvörðunina, hefur sjálfur á skömmum tíma verið varaþingmaður Samfylkingarinnar, alþingismaður Framsóknarflokksins, óháður þingmaður og formaður stjórnmálaflokksins Bjartrar framtíðar.
Engum fréttamanni fannst neitt athugavert við þennan rökstuðning.
Enda hafa íslenskir fjölmiðlamenn aldrei séð neitt að því að taka við Guðmund samfelld viðtöl um ekkert. Hann er nefnilega á móti „fjórflokknum“.