Föstudagur 17. febrúar 2012

Vefþjóðviljinn 48. tbl. 16. árg.

Allt frá því fyrsta ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur tók við völdum fyrir þremur árum hafa staðið yfir stöðugar aðferðafræðilegar tilraunir í sambandi við stjórnarskrárbreytingarnar. Hafa flestar aðgerðirnar í því sambandi einkennst af því viðhorfi stjórnarmeirihlutans á Alþingi að þeirri stofnun og honum sjálfum sé ekki treystandi til að ljúka stjórnarskrárbreytingum með þeim aðferðum sem stjórnarskráin sjálf kveður á um. Ekki verður sú saga öll sögð hér en látið nægja að minna á að þegar kjósa átti til svokallaðs stjórnlagaþings haustið 2010 létu 65% kjósenda sér fátt um finnast og sátu heima. Síðar kom í ljós að slíkir gallar voru á framkvæmdinni að Hæstiréttur sá sér ekki annars kost en að ógilda kosningarnar. Ríkisstjórnarflokkarnir og hefðbundnir fylgihnettir þeirra, þingmenn Hreyfingarinnar og einhverjir úr Framsóknarflokknum, ákváðu hins vegar að láta ekki nokkra miðaldra lögfræðinga slá sig út af laginu og eyðileggja þetta „frábæra framtak“ sem „þjóðin krafðist“ og tók þá til ráðs að láta niðurstöður ógildu kosninganna standa en skipti bara um nafn á fyrirbærinu, sem fékk nafnið stjórnlagaráð en ekki stjórnlagaþing. Allt annað var óbreytt; sama fólkið, sömu verkefni, sömu laun, sami starfstími og svo má lengi telja. 

Í fyrrahaust skilaði þetta ólöglega kjörna stjórnlagaráð svo tillögum sínum, sem birtust í „frumvarpi“ að nýrri stjórnarskrá. Ráðið hafði talið að það ætti á fjórum mánuðum að semja alveg nýja stjórnarskrá og breytti þess vegna öllum greinum gildandi stjórnarskrár, alveg óháð því hvort þær væru taldar hafa reynst vel eða illa, og bætti við um það bil 25 nýjum ákvæðum um hin aðskiljanlegustu efni. Frá því í október hefur stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins verið að vandræðast með málið, fengið alls konar athugasemdir og ábendingar um atriði sem betur megi fara í tillögunum, en nú fyrst virðist hilla undir einhverja niðurstöðu. Formaður nefndarinnar hefur í fjölmiðlum lýst því að nú í mars eigi að kalla ólögmæta stjórnlagaráðið saman aftur í nokkra daga, ræða einhverjar frekari breytingar við fulltrúana þar og efna í kjölfarið til þjóðaratkvæðagreiðslu í sumar, annars vegar um tillögur stjórnlagaráðsins í heild, annað hvort óbreyttar eða með smávægilegum lagfæringum, og jafnhliða um 4-5 tiltekin atriði úr stjórnarskrártillögunum að vali stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar eða meirihluta hennar. Þingið muni svo fjalla næsta vetur um nýtt frumvarp til stjórnskipunarlaga, sem byggist í meginatriðum á niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar, en geti þó falið í sér einhverjar enn frekari breytingar.

Allt er þetta einfalt og skýrt, er það ekki? Fólk mun væntanlega alveg hafa á hreinu um hvað er verið að kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslunni og hvaða gildi felst í svarinu já eða nei. Venjulegur maður sem fylgist með þessum ósköpum hlýtur að spyrja; af hverju einbeitir þetta fólk sér ekki að því að breyta þeim ákvæðum stjórnarskrárinnar sem sæmileg samstaða er um að þurfi að breyta? Af hverju er ekki bara farið eftir stjórnarskránni sjálfri þegar kemur að stjórnarskrárbreytingum? Þannig hefur jú þingið sjö sinnum endurskoðað stjórnarskrána á lýðveldistímanum og samanlagt breytt 48 ákvæðum af þeim 79, sem þar er að finna.