Föstudagur 10. febrúar 2012

Vefþjóðviljinn 41. tbl. 16. árg.

Enn hefur sjónvarpsstöðvunum ekki tekist að setja saman vandaða fréttaskýringu, sem myndi sýna annars vegar Jóhönnu Sigurðardóttur og aðra forkólfa vinstristjórnarinnar halda því fram fram af hörku úr ræðustóli Alþingis, að Alþingi sé óheimilt að afturkalla ákæru á hendur Geir Haarde – og svo hins vegar útskýringar Sigríðar Friðjónsdóttur saksóknara Alþingis þar sem hún útskýrir í einföldu máli að Alþingi hafi fulla heimild til þess.

Enn sem komið er hafa sjónvarpsstöðvarnar engan áhuga haft á þessu.

Heldur einhver að þeir hefðu sleppt slíkri samantekt í hálfan mánuð ef einhver önnur stjórnarforysta hefði átt í hlut? Ef til dæmis Björn Bjarnason hefði haldið fram slíkum staðleysum og saksóknari Alþingis blásið á málflutning hans? Hversu langt hefði innslagið verið í Kastljósinu, hversu vandlega hefði Spegillinn þurft að ræða við Gunnar Helga Kristinsson um hvort Björn þyrfti að segja af sér embætti og hversu langt sjónvarpsviðtal hefði þurft við Sigurbjörgu stjórnsýslufræðing um málið?

Og hvernig var með nýlegan ágreining Jóhönnu Sigurðardóttur og Runólfs Ólafssonar framkvæmdastjóra FÍB? Þegar bensínverð hafði hækkað um 18-19 krónur frá áramótum fullyrti Jóhanna Sigurðardóttir að einungis þrjár krónur af þeim kæmu í hlut ríkisins með sköttum. Framkvæmdastjóri FÍB sagði að í raun rynnu 6 krónur og 42 aurar af hækkuninni í ríkiskassann. 

Fréttamenn létu sér nægja að hafa eftir Runólfi að útreikningar Jóhönnu væru rangir. En hvers vegna fara fréttamenn ekki ofan í þetta? Það ætti að vera einfalt. Fór forsætisráðherra með rangar tölur svo skeikaði meira en helmingi? Og notaði rangfærsluna til að slá á kröfur um skattalækkun á eldsneyti. Eða fer framkvæmdastjóri FÍB með rangfærslur um hlut ríkisins í eldsneytisverði? 

Hvers vegna athuga fjölmiðlamenn þetta ekki og segja fólki svo hvort þeirra fór með rangt mál?