Vefþjóðviljinn 40. tbl. 16. árg.
Á forsíðu Fréttablaðs nýja Íslands í dag er sagt frá því að Landsbankinn, Landsspítalinn, Landsvirkjun og Reykjavíkurborg séu saman í „hugmyndavinnu um að koma upp svokölluðu skyndibílakerfi hér á landi.“
Kerfið gengur þannig fyrir sig að viðskiptavinir kaupa sér aðgang að þjónustunni og panta svo bíl til leigu í gegnum vefinn. Þar er hægt að tiltaka leigutíma og mögulega akstursvegalengd.
Notendur fara svo að geymslustæði þar sem bíllinn stendur, opna bílinn annað hvort með lykilkorti eða símaskilaboðum, og aka svo af stað. Eftir notkun er bílnum svo skilað á sama stað, til reiðu fyrir næsta viðskiptavin.
Uhhh, bílaleiga?
Ríkisstjórnin er búin hækka öll gjöld og skatta á bíl og eldsneyti svo rækilega að hinn almenni maður hefur ekki lengur ráð á að eiga bíl. Til að leysa málið ætla nokkur opinber fyrirtæki að bjóða mönnum að leigja bíl til hátíðarbrigða; þegar farið er heim með frumburðinn af fæðingardeildinni eða til að skera sig ekki úr hópnum á landsfundi VG.
Forsvarsmaður „hugmyndavinnunnar“ er titlaður „sérfræðingur í samfélagslegri ábyrgð hjá Landsbankanum.“