Laugardagur 11. febrúar 2012

Vefþjóðviljinn 42. tbl. 16. árg.

Í janúar sagði Vefþjóðviljinn frá Útgáfufélaginu Smugunni ehf sem Vinstri hreyfingin grænt framboð rekur í félagi við Lilju Skaftadóttur útgefanda DV, Tosiki Toma og fleiri. 

Þar kom meðal annars fram að einkahlutafélagið hafði ekki skilað ársreikningi fyrir árið 2010. 

Fréttatíminn spurðist fyrir um það í síðustu viku hvernig stæði á því að útgáfufélagið hefði ekki skilað reikningi til ársreikningaskrár. Fyrir svörum varð Hlynur Hallsson andstæðingur foringjadýrkunar og handhafi nærbols

Fréttatíminn spurði hvernig á því að stæði að fjölmiðill, hvers stærsti eigandi er Vinstri hreyfingin – grænt framboð, væri ekki búin að skila ársreikningi einn íslenskra fjölmiðla? „Þú segir mér fréttir. Við skiluðum fyrst ársreikningnum í október en hann var sendur til baka vegna formgalla því það hafði láðst að tilkynna um breytingar á stjórn. Síðan skiluðum við reikningnum í byrjun desember eftir því sem ég best veit,“ sagði Hlynur.

Þegar blaðamaður hafði samband við ársreikningaskrá, sem er deild hjá ríkisskattstjóra, var fyrir svörum Ólafur Sverrisson. „Það er ekki skráð að þeir hafi skilað ársreikningi aftur til ársreikningaskrár,“ hljómaði svarið frá Ólafi þegar hann var spurður um ársreikning Smugunnar fyrir árið 2010. Þá hringdi blaðamaður aftur í Hlyn og sagði honum svör ársreikningaskrár. „Ég þarf að ræða þetta við Grant Thornton, endurskoðenda okkar,“ sagði Hlynur. Að nokkurri stund liðinni hringdi Hlynur til baka í blaðamann og sagðist hafa rætt við Egil hjá Grant Thornton sem staðfesti að ársreikningnum hefði verið skilað inn til ársreikningaskrár. Í ljósi þess að ársreikningurinn finnst ekki hjá ársreikningaskrá lá beinast við spyrja Hlyn hverju væri um að kenna? „Við höfum ekkert að fela. Það varð smá tap hjá okkur árið 2010 en umfangið er ekki mikið. Ársreikningurinn er ekki týndur heldur týndur í kerfinu. Ársreikningaskrá hlýtur að hafa týnt ársreikningnum. Nú eða endurskoðendur okkar. Við erum í það minnsta með allt okkar á hreinu.“

Gagnsæið hjá VG er svo gríðarlegt að ársreikningur Smugunnar er ósýnilegur. 

Hvað ætli fjölmiðlarnir hefði tekið marga snúninga á því ef útgáfufélag á vegum Framsóknarflokksins hefði verið gert afturreka með ársreikning sinn og síðan „týnt honum í kerfinu.“

Sama dag og fréttin birtist í Fréttatímanum, daginn eftir að blaðið ræddi við Hlyn, var ársreikningnum skilað til ársreikningaskrár. 

Vefþjóðviljinn var að vonum spenntur að kynna sér hvert smáatriði í ársreikningi félags sem gefið er út af flokki gagnsæis og breyttra vinnubragða á nýja Íslandi. Þar væri auðvitað öllu til skila haldið og  ekkert dregið undan. 

En ársreikningur Útgáfufélagsins Smugan ehf, sem loks fannst og var skilað til ársreikningaskrár, er eins „samandreginn“ og kostur er. Hvorki tekjur né gjöld eru gefin upp heldur aðeins munurinn þar á. Það kemur því ekki fram hvert framlag VG til einkahlutafélagsins er eða frá hvaða álverum og nektardansstöðum félagið nýtur styrkja.

Og ekki tjóir heldur að leita í ársreikning VG eftir þessum upplýsingum.