Vefþjóðviljinn 38. tbl. 16. árg.
Í síðustu viku fjallaði Vefþjóðviljinn um það athyglisverða mál að svo virðist sem annað hvort ákafasti bankahruns-fréttamaður Ríkisútvarpsins, Sigrún Davíðsdóttir, eða þá nefndarmaður, einn eða fleiri í rannsóknarnefnd Alþingis hefði farið með vísvitandi ósanndindi um málefni nefndarinnar.
Eitt það allra athyglisverðasta við þetta mál eru viðbrögð eða viðbragðsleysi Ríkisútvarpsins. Enn hefur nefnilega ekkert bólað á viðbrögðum þaðan. Hversu lengi ætli Ríkisútvarpinu sé stætt á að láta eins og þar taki enginn eftir málinu? Hvers vegna upplýsir Ríkisútvarpið ekki hvort það var Sigrún eða rannsóknarnefndarmenn sem fóru með ósannindi? Lætur ekki Ríkisútvarpið oft eins og „almenningur“ eigi „rétt á að vita“ þetta eða hitt? Hvernig er með þetta mál?
Og fyrst minnst hefur verið á Ríkisútvarpið þá rifjast upp athyglisverð skrif um það sem birtust á netinu fyrir skömmu. Rögnvaldur Hreiðarsson skrifaði á Eyjuna þann 23. janúar, eftir að síðdegisútvarp Rásar 2 hafði rætt átökin sem þá höfðu orðið á alþingi um afturköllun ákæru á hendur Geir Haarde. Frásagnarefni hans er fjarri því að vera einsdæmi nú á tímum:
Síðdegisútvarp rásar 2 fjallaði um vonum um landsdómsmálið í dag. Þetta er mál málanna og allt er upp í loft vegna þess og því ekki óeðlilegt að um málið sé fjallað.
Þetta er afar viðkvæmt mál og örugglega ekki ofmælt að það sé eitt umdeildasta mál sem við höfum staðið frammi fyrir lengi með öllum sínum öngum og ranghölum þar sem pólitík spilar stóra rullu. Þess vegna skiptir matreiðsla þeirra sem tala í útvarpi allra landsmanna miklu.
Í kynningu á efninu var ekki annað að heyra á þáttastjórnendum en að þau hafi leyst lífsgátuna og komið sér upp skoðun á viðfangsefninu og fóru ekki mjög leynt með niðurstöðuna. Nú ætla ég fjölmiðlafólki alls ekki að það megi ekki og kunni ekki að hafa skoðanir en þetta er vandmeðfarið eins og flestir ættu að geta skilið.
Og þá var komið að því að kynna til leiks þá sem stjórnendur þáttarins hefðu valið til að hjálpa okkur að glöggva okkur á þessu annars flókna álitamáli sem klýfur hið minnsta tvo flokka niður í rætur.
Margrét Tryggvadóttir, Eygló Harðardóttir og síðast en ekki síst Magnús Orri Schram. Allt hið mætasta fólk sem er svo sannarlega með kjöt á beinum þegar kemur að því að rökræða pólitík og allt gott um það að segja.
En allt fólk með sömu sýn á stöðuna og allt fólk sem tilheyrði óánægðum minnihlutanum. Og þarna var sem sagt vinalegt spjall eintóna og umræðan öll á eina lund einhvernvegin og allir svo glaðir og sammála.
Hvurslags metnaður er þetta? Hvar er fagmennskan í þessu? Á ég að þora að segja hlutleysið?