Mánudagur 6. febrúar 2012

Vefþjóðviljinn 37. tbl. 16. árg.

Hluti af tapi íslensku lífeyrissjóðanna er vegna þess að neyðarlögin tryggðu hagsmuni innstæðueigenda, eins og á Icesave, á kostnað skuldabréfaeigenda.
Hluti af tapi íslensku lífeyrissjóðanna er vegna þess að neyðarlögin tryggðu hagsmuni innstæðueigenda, eins og á Icesave, á kostnað skuldabréfaeigenda.

Lífeyrissjóðum eru sett ströng fyrirmæli um fjárfestingar með sérstökum lögum og með þeim er mikið eftirlit. Aðeins háskólamenntað „fagfólk“ fær að halda um framkvæmdastjórn sjóðanna. Í stjórn sjóðanna hafa þó einnig verið menn frá samtökum atvinnurekenda og launafólks sem ekki hafa flaggað háskólagráðum. 

Það á þó ekki við um Lífeyrissjóð verkfræðinga sem aðeins hefur haft sprenglærða og talnaglögga menn í stjórn. Aðeins fagfólk hefur fengið að koma að rekstri sjóðsins. Lífeyrissjóður verkfræðinga er líka einn af fáum sjóðum með „sjóðsfélagalýðræði“. Sjóðsfélagar kjósa alla stjórnarmenn á aðalfundum sjóðsins.

Lífeyrissjóður verkfræðinga tapaði ríflega annarri hverri krónu á árunum 2008 til 2010. Er það mesta tap íslensks lífeyrissjóðs á þessum árum. Til að undirstrika sársaukann vegna tapsins tryggði sjóðurinn sér lénið lífsverk.is

Nú er sjálfsagt að hafa í huga að lífeyrissjóðir eru reknir með það í huga að ná sæmilegri ávöxtun yfir áratugi svo auðvitað væri rétt að skoða ávöxtun yfir lengri tíma en þrjú ár. Þá er rétt að muna að neyðarlögin frá því október 2008 færðu innstæðueigendur fram fyrir skuldabréfaeigendur eins og lífeyrissjóðina í kröfuhafaröð bankanna. Sennilega væri tap sjóðanna eitthvað minna ef neyðarlögin hefðu ekki verið sett. 

Hinar gríðarlegu tölur um tap lífeyrissjóðanna á skuldabréfum bankanna minna því einnig á að íslenskir lífeyrisþegar voru með neyðarlögunum settir aftur fyrir innstæðueigendur á Icesave reikningum Landsbankans. Icesave innstæðueigendurnir fá þar með nærri því allt sitt bætt úr þrotabúi bankans á meðan íslenskir lífeyrisþegar fá ekkert nema skertan lífeyri.

Eftirlitsstofnun í Brussel hefur nú dregið íslenska ríkið fyrir dóm úti í Evrópu því það þykir ekki hafa gætt hagsmuna innstæðueigenda á Icesave!