Helgarsprokið 5. febrúar 2012

Vefþjóðviljinn 36. tbl. 16. árg.

Líf og fjör í Kolaportinu. Stærstu endurvinnslufyrirtæki í heimi starfa án nokkurra afskipta ríkis og borgar. Þannig á endurvinnsla á vera.
Líf og fjör í Kolaportinu. Stærstu endurvinnslufyrirtæki í heimi starfa án nokkurra afskipta ríkis og borgar. Þannig á endurvinnsla á vera.

Á vefsíðum eins og Ebay og bland.is skiptist fólk í sannleika sagt á furðulegustu hlutum. Fyrirfram virðist ekki hægt að dæma nokkur hlut úr leik. Menn virðist geta tekið hvaða hlut sem er úr geymslunni, bílskúrnum  eða þvottakörfunni, smellt af honum mynd, sett á þessa vefi og stuttu síðar er ákafur kaupandi búinn að gefa sig fram.

Efast má um að til séu öflugri endurvinnslufyrirtæki en vefir af þessu tagi nema kannski sambærilegir markaðir í kjötheimum á borð við Kolaportið, þar sem  alsælir viðskiptavinir ganga út með notuð föt og dót sem dagaði uppi á lager.

Þessir markaðir eru til vegna þess að þeir standa undir sér. Þeir sem eiga viðskipti á þeim telja sig betur setta en áður. 

Í Fréttablaðinu í gær er hins vegar sagt annars konar endurvinnslu. Það er þessi endurvinnsla sem fjölmiðla- og stjórnmálamenn telja hafna yfir alla gagnrýni og jafnvel leikskólar reyna að innræta börnum með grænfánahyllingum og boðorðum. Það er því aldrei nema ein hlið málsins kynnt. Sú er raunin í Fréttablaðinu í gær.

Einn viðmælanda Fréttablaðsins að þessu sinni er umhverfisverkfræðingur og kallar það „siðferðislega skyldu að flokka“ rusl og koma í endurvinnslu. Svo bætir umhverfisverkfræðingurinn við:

Ég nenni ekki að standa í flóknum flokkunaraðgerðum, svo ég reyni frekar að velja einfaldar umbúðir. Við gerum þetta eins og allir meðaljónar gætu gert, hugsunarlaust og án mikillar fyrirhafnar.

Já lengra nær nú siðferðislega flokkunarskyldan ekki, bara það einfalda flokkað.

Umhverfisverkfræðingurinn upplýsir svo að ef allir flokkuðu sorp þyrfti ekki að losa sorptunnurnar eins oft  „með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið“. En þeir sem flokka til að mynda pappír frá öðru sorpi í Reykjavík og setja í sérstaka bláa tunnu fá þeir ekki tvo sorpbíla heim til sín á meðan þeir sem demba öllu í eina svarta tunnu fá aðeins einn sorpbíl í heimsókn? Ef einn sorpbíll er „tilheyrandi kostnaður fyrir samfélagið“ hvað eru þá tveir? Og þykir það ekki „sóun“ að nota tvær ruslatunnur þegar ein gæti dugað?

Umhverfisverkfræðingurinn segir raunar að fjölskyldan fari með sorpið sem hún flokkar á endurvinnslustöðvar Sorpu á tveggja til þriggja vikna fresti. Er sá bíltúr alveg ókeypis? Og á mynd sem prýðir frásögn Fréttablaðsins má sjá fyrirferðina á öllu uppsafnaða sorpinu á heimili verkfræðingsins. Nokkrir stórir pokar bíða þess að vera ekið út á endurvinnslustöð. Hvað kostar plássið í íbúðarhúsnæði undir þá? Er ekki leiguverð á fermetranum frá 1.500 til 3.000 krónur á mánuði eða um 25.000 krónur á ári að meðtaltali? Hver væri „tilheyrandi kostnaður fyrir samfélagið“ ef hundrað þúsund íslensk heimili settu öll 1 fermetra undir flokkað sorp? Tveir og hálfur milljarður króna á ári. Tvöþúsund og fimmhundruð milljónir króna.

Nú er rétt að ítreka að eins og kom fram í upphafi hefur Vefþjóðviljinn síður en svo á móti því að fólk endurnýti hluti. Hann dáist þvert á móti að því hvernig menn rata hver á annan til að skipta á notuðum kjól eða einstakri vínylplötu fyrir fé. Alveg án þess að umhverfisnefnd sveitarfélagsins skipti sér af því, setji um það reglur og leggi á gjöld.

Það er bara engin ástæða til að nálgast endurvinnslu með siðavöndinn á lofti eða heimta að hið opinbera skipti sér af þessu. Fyrr en síðar kemur að því að endurvinnslufyrirtæki greiði fólki fyrir að taka til hliðar ákveðinn úrgang. Margt af honum er hægt að endurvinna eða endurnýta sem orkugjafa.

Þangað til mega metnaðarfullir flokkarar auðvitað hafa sitt sorpföndur í friði, leggja heimili sín undir sorpílát í öllum regnbogans litum og fá sér sunnudagsbíltúra út á næstu endurvinnslustöð með uppáhalds flokkinn sinn – gegn því að þeir virði rétt annarra til að nota frítímann í eitthvað annað en að lesa sundur skarnið.

Við þetta má svo bæta að á dögunum kom upp úr dúrnum að ef Eyjamenn vilja flytja sorpið sitt út til brennslu geta þeir fengið betra verð fyrir það ef þeir hætta að flokka dagblöð og pappa frá. Sorpið brennur betur ef Fréttablaðið er haft með.