Föstudagur 3. febrúar 2012

Vefþjóðviljinn 34. tbl. 16. árg.

Eitt mál hefur enn ekki vakið þá athygli sem eðlileg virðist. Björn Jón Bragason sagnfræðingur og Andrés Magnússon blaðamaður á Viðskiptablaðinu, hafa vakið athygli á því en fáir aðrir virðast hafa gert það.

Einn af fréttamönnum Ríkisútvarpsins, Sigrún Davíðsdóttir, mun hafa haldið því fram opinberlega að Rannsóknarnefnd Alþingis hafi, eftir að hún skilaði skýrslu sinni og lauk störfum, svarað efnislega spurningum sínum og staðfest skilning fréttamannsins á ýmsum atriðum skýrslunnar. Nýlega voru hins vegar birtar yfirlýsingar nefndarmannanna þriggja, Páls Hreinssonar, Sigríðar Benediktsdóttur og Tryggva Gunnarssonar, þar sem þau fullyrða öll að þetta hafi þau alls ekki gert. Ekkert þeirra hafi svarað nokkrum fjölmiðlamanni um efni skýrslunnar eftir að nefndin hafi lokið störfum sínum.

Einhver heldur kannski að þetta sé smámál. En það sem virðist blasa við er þetta:

Einn mest áberandi fréttamaður Ríkisútvarpsins, sem mjög hefur fjallað um bankahrunið, heldur því fram opinberlega að Rannsóknarnefndarmenn hafi svarað og staðfest við sig skilning sinn á vissu efni skýrslunnar. Nefndarmennirnir allir mótmæla því. Hér getur tæplega verið um misskilning að ræða. Að minnsta kosti annar aðilinn, fréttamaðurinn eða rannsóknarnefndarmenn, einn eða fleiri, virðast fara hér með bein ósannindi.

Hvernig bregst Ríkisútvarpið við? Ef Rannsóknarnefndarmaður, einn eða fleiri, fer með ósannindi um störf nefndarinnar í opinberri yfirlýsingu, þá er það augljóslega fréttnæmt. Ef fréttaritari Ríkisútvarpsins, sem mikið hefur fjallað um bankahrunið, fer með ósannindi um samskipti sín og Rannsóknarnefndarinnar, þá er það stórt mál. Ætlar Ríkisútvarpið bara að láta eins og það sjái þetta ekki? 

Eins og Andrés Magnússon bendir á í pistli í Viðskiptablaðinu í gær, þá eiga hér engan veginn við hefðbundin sjónarmið fjölmiðlamanna um að ekki séu gefin upp nöfn „heimildarmanna“. Fréttamaðurinn upplýsti sjálfur opinberlega að nefndin hefði svarað sér og staðfest skilning sinn á ákveðnum atriðum. Það var því greinilega ekkert leyndarmál. Ríkisútvarpið hlýtur að ganga eftir því að fá skýrar upplýsingar um það, hvort fréttaritari þess segir ranglega að Rannsóknarnefndarmenn hafi svarað sér og staðfest skilning sinn, eða hvort Rannsóknarnefndarmenn Alþingis fara  rangt með í opinberri yfirlýsingu. Og þegar Ríkisútvarpið hefur fengið skýr svör um þetta, þá hlýtur það að upplýsa hlustendur sína um það hvort var rétt.