Vefþjóðviljinn 33. tbl. 16. árg.
Þetta var þá ekki flóknara er svo eftir allt saman.
Herman Van Rompuy forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins tilkynnti á mánudaginn að öll aðildarríki ESB nema Bretland og Tékkland hefðu undirritað nýjan efnahagssáttmála sem á að koma í veg fyrir skuldakreppur í framtíðinni.
Helsta trompið í nýja sáttmálanum er að ríki megi ekki vera með halla á fjárlögum sínum. Ef þau hlíta því ekki verður þeim refsað, væntanlega með sektum sem auka þá hallann sem þær eiga að koma í veg fyrir.
Það er auðvitað svolítið undarlegt að Bretar og Tékkar vilji ekki vera með í því að koma í veg fyrir skuldakreppur í framtíðinni. Leiðtogar þeirra hafa greinilega ekki smekk fyrir gulli og grænum skógum.
En þótt búið sé að binda enda á skuldakreppur alls staðar nema í Bretlandi og Tékklandi veita stjórnmálamenn almenningi áfram góð ráð um fjármál.
Steingrímur J. Sigfússon og fleiri formenn norrænna vinstriflokka skrifa í Fréttablaðið í dag þar sem þeir leggja til nokkrar reglur til viðbótar við þær mörg þúsund sem þegar eru í gildi um fjármálastarfsemi. Þessar reglur munu koma í veg fyrir að „skattborgarar borgi reikninginn þegar bjarga á bönkum“, skrifa þeir í upphafi greinar sinnar.
Það er óneitanlega athyglisvert að formenn flokkanna lengst til vinstri líti á það sem forsendu fyrir lífi á jörðinni að bönkum sé bjargað.
Hvernig væri að þessir reglugerðameistarar íhuguðu bann við því að ríkisvaldið bjargi bönkum?