Fimmtudagur 26. janúar 2012

Vefþjóðviljinn 26. tbl. 16. árg.

Forstjórar verðsamráðsklúbbanna sem kallaðir eru stéttarfélög opinberra starfsmanna stóðu sármóðgaðir í röð við upptökuvélar sjónvarpsstöðvanna í gær. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hafði leyft sér að vekja athygli á því að ýmsir gætu séð sér matarholu í því margvíslega stússi sem aðlögunarviðræður ríkisstjórnar Íslands við Evrópusambandið eru, þeirra á meðal embættismenn íslenska ríkisins. Þetta töldu forstjórarnir dónaskap og voru miður sín að auki yfir því að þvílíkt kæmi frá fyrrverandi formanni BSRB.

Eru aðlögunarviðræðurnar við ESB þá fyrsta verkefnið í sögu ríkisrekstrar sem laðar ekki að sér menn sem vilja ná sér í bita? 

Ætli enginn embættismaður láti sér vel líka að komast reglulega til útlanda á kostnað skattgreiðenda með fulla vasa af dagpeningum?

Ætli sá embættismaður finnist ekki sem lætur það hafa áhrif á sig að upp úr þessu gæti hann komist í þægilega innivinnu í Brussel, með ríkisstyrk til gardínukaupa og annars uppihalds auk skattfrjálsra launa í erlendri mynt?

Skömmu eftir þingkosningar vorið 2009, þegar ljóst var að ríkisstjórnin ætlaði að sækja um aðild að ESB, tilkynnti Icelandair að félagið hæfi senn áætlunarflug til Brussel.