Föstudagur 27. janúar 2012

Vefþjóðviljinn 27. tbl. 16. árg.

Ríkisútvarp vinstrimanna, RÚV, er einstakt. 

Mikið hefur verið deilt um afturköllun ákæru gegn Geir Haarde. Afsökun forystu Samfylkingarinnar fyrir að afturkalla ekki ákæruna hefur fyrst og fremst verið sú, að með slíkri afturköllun væri Alþingi með „íhlutun í dómsmál“. 

Í gær barst verulega fréttnæmt innlegg í þá deilu. Það innlegg var stjórnmálafrétt dagsins.

Sigríður Friðjónsdóttir, saksóknari Alþingis, lýsti því yfir aðspurð að þessi skilningur væri rangur. Það væri alls ekki afskipti af dómsmáli ef Alþingi afturkallaði ákæruna. Alþingi hefði þvert á móti fulla heimild til þess.

Í fréttayfirliti í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi var ekki minnst á þetta. Í fréttayfirlitið náðu hins vegar áríðandi mál eins og „skákdagurinn“ og óánægja kaupmanns með að aðrir fengju lægra verð frá birgjum.

Þegar hvorki meira né minna en tólf mínútur og sautján sekúndur voru liðnar af fréttatímanum las Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir upp inngang að eigin frétt sinni um orð saksóknarans. Inngangurinn var þessi:

Saksóknari Alþingis segir afar brýnt að þingið ljúki sem fyrst umfjöllun um afturköllun ákæru á hendur Geir Haarde. Óþægilegt sé að vinna að málinu við núverandi aðstæður. Hann segir ekkert hafa breyst efnislega  í málinu frá því ákært var.

Þetta er það sem Ríkissjónvarpinu þykir fréttnæmast fyrir sjónvarpsáhorfendur. Óþægilegt að vinna að málinu, en ekkert hefur breyst.

Í viðtalinu er saksóknari Alþingis hins vegar spurður: „En afturköllun ákæru, er það íhlutun í dómsmál?“ Og saksóknarinn svarar: „Það er það nú ekki, nei. Það er þannig að ákærandinn í málinu hann hefur forræði á því, og á sakarefninu, alveg þangað til að dómur fellur. Þannig að samkvæmt sakamálalögunum þá getur hann í rauninni afturkallað ákæru alveg þangað til að dómur fellur.“

Og ef einhver heldur að „ákærandinn“ sé í raunsaksóknarinn, þá tók Sigríður Friðjónsdóttir það skýrt fram í viðtalinu að ákæruvaldið í málinu er hjá Alþingi, en ekki henni.

Þetta er afar fréttnæmt. Saksóknari Alþingis blæs algerlega á meginafsökun forystu Samfylkingarinnar, ekki síst Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrir því að afturkalla ekki ákæruna. En ekki ratar þetta í fréttayfirlit. Ekki einu sinni í inngang fréttarinnar. Og ekki dettur fréttamönnum í hug að sýna nú stór orð Jóhönnu og flestra annarra þingmanna Samfylkingarinnar sem margsinnis hafa fullyrt hið gagnstæða úr ræðustól  undanfarið. 

Og á heimasíðu Ríkisútvarpsins, þar sem fréttir kvöldsins eru birtar, er þessi frétt sú áttunda í röðinni, og ber heitið „Ekkert breyst í málinu gegn Geir Haarde.“

Ríkisútvarpið er algerlega einstakt. Og þar sem það er í þeirri einstöku stöðu að starfsmenn þess bera enga ábyrgð, lúta engu eftirliti en eru áskrifendur að fjármunum almennings, þá viðurkenna stjórnendur þess aldrei mistök. Ef þeir svara gagnrýni þá er það oftast með skítkasti og skætingi.