Miðvikudagur 25. janúar 2012

Vefþjóðviljinn 25. tbl. 16. árg.

Það er margt skemmtilegt á netinu. Sumt er þó ekki eins frumlegt og aðstandendur vilja vera að láta.

Þannig rakst Vefþjóðviljinn á skemmtilega íslenska síðu sem virðist þó hönnuð í fjarlægu landi.

Á síðunni askoruntilforseta.is blasir við risastór mynd af Ólafi Ragnari Grímssyni og konu hans. Ekki er víst hver tók myndina, hvenær eða fyrir hvern, en glæsilegur er forsetinn að vanda og horfir til austurs, þangað sem sólin rís á hverjum morgni yfir ríki hans. Yfir myndina er svo letraður jarðbundinn texti:

Við undirrituð skorum á þig, herra Ólafur Ragnar Grímsson að gefa kost á þér til forsetakjörs í sumar. Við treystum þér betur en nokkrum öðrum manni til að standa vörð um hagsmuni fólksins í landinu á þeim erfiðu tímum sem fram undan eru.
Stuðningsmenn Ólafs Ragnars

Hér er ekkert ofsagt. Ólafi Ragnari er auðvitað betur treystandi en nokkrum öðrum manni, hver sem kynni að bjóða sig fram. Sextán ára sigurganga á Bessastöðum segir allt sem  dauðlegum mönnum getur dottið í hug um það hversu Ólafur Ragnar ber af öllum öðrum mönnum. Aðeins undirskriftin kemur á óvart, því þar sem texta auglýsingarinnar er beint til herra Ólafs Ragnars sjálfs, þá er ekki gott að segja hvers vegna undir standa „Stuðningsmenn Ólafs Ragnars“ en ekki „Stuðningsmenn þínir“. Gefur það til kynna að í raun séu það stuðningsmenn einhvers annars Ólafs Ragnars sem styðji nafna hans forsetann svona ákaft.

En þrátt fyrir að þessi skemmtilega síða virðist frumleg, þá getur verið að raunverulegir smiðir hennar starfi í framandi landi og sendi þaðan ýmislegt fleira skemmtilegt en að Ólafi Ragnari Grímssyni sé betur treystandi en öllum öðrum mönnum.

Í nýlegri frétt Ríkisfréttastofu Norður-Kóreru kemur fram að bæði fuglar og jurtir syrgi sárt Kim Jong Il, sem á dögunum féll frá „vegna gríðarlegs vinnuálags“, eins og sagði í tilkynningu stjórnvalda. Mun vinnuálag Kims hafa verið litlu minna en Steingrímur J. Sigfússon hefur sjálfur upplýst að hann hafi verið undir, mánuðina og árin sem hann og Björn Valur unnu einir að því að endurreisa land og þjóð en úrtölumenn þvældust fyrir og vildu ekki samþykkja samninginn hans Svavars.
Í fréttinni af sorg blóma og fugla í Norður-Kóreu segir meðal annars:

Þessi náttúruundur áttu sér stað í sendiráði Norður-Kóreu í Þýskalandi 20. desember, daginn eftir fráfall Kim. Smáfugl af meisuætt mun hafa staðið fyrir utan inngang sendiráðsins í klukkustund og goggað í gler útihurðar á meðan skrautjurt blómstraði sínu fegursta á meðan á sorgartímabilinu stóð, þrátt fyrir fimbulkulda og vetrartíð.
„Svo virðist sem fregnir af andláti þessa mikla leiðtoga hafi gert það að verkum að fuglinn flaug að sendiráðinu til að votta samúð sína,“ segir í frétt ríkisfréttastofunnar.
„Jurtin blómstraði á köldum vetrardegi til að geta sýnt sorg sína.“

Höfundar heimasíðunnar, þar sem fram kemur að Ólafi Ragnari Grímssyni megi treysta „betur en nokkrum öðrum manni“, og höfundar fréttarinnar um sorg blómanna í Kóreu, eru líklega samstarfsmenn.