Þriðjudagur 24. janúar 2012

XVefþjóðviljinn 24. tbl. 16. árg.

Hinn 2. febrúar 1998 bauð Vefþjóðviljinn fréttavefinn mbl.is velkominn til leiks á lýðnetinu.

Mogginn opnaði nýja heimasíðu á  miðnætti. Blaðamönnum síðunnar tekst reyndar ekki að rita nöfn beggja ritstjóra sinna rétt, en í nógu hefur líklega verið að snúast þannig að slíkt verður að fyrirgefa. En burtséð frá réttritun lofar síðan góðu og svo virðist sem hún verði góð viðbót við netflóruna.

Áður en …

…Arnaldur Indriðason sendi frá sér sína fyrstu skáldsögu

…fréttavefurinn mbl.is varð til

…fréttavefurinn visir.is varð til

…þjóðvegur I lá í göngum undir Hvalfjörð

…Tony Blair varð ráðherra í fyrsta skipti

…Geir H. Haarde varð ráðherra í fyrsta skipti

…Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir bauð sig fyrst fram til þings

…Fréttablaðið kom í fyrsta sinn óboðið inn um lúgu nokkurs heimilis

…Jóhanna Sigurðardóttir fagnaði tuttugu ára þingsetuafmæli sínu

…Birkir Jón Jónsson fékk kosningarétt

þá…

…kom Vefþjóðviljinn út sjö daga vikunnar, vinstrimönnum landsins til fróðleiks og skemmtunar. 

Í dag eru fimmtán ár liðin frá því stjórnmálafélagið Andríki hóf útgáfu Vefþjóðviljans, sem hefur síðan komið út hvern einasta dag ársins, óháð veðri, vindum og viðtökum lesenda. Er blaðinu þó hlýtt til lesenda sinna og þá ekki síst þeirra sem af og til láta í sér heyra, hvort sem er til að þakka fyrir útgáfuna eða þá til að upplýsa afdráttarlaust hverra örlaga slíkt rit megi vænta þegar nýtt Ísland verði endanlega komið í gagnið. Hvorir tveggju minna á nauðsyn útgáfunnar og vandséð hvorir mega sín þar meira. Að ekki sé nú talað um þá sem styðja útgáfuna og önnur tiltæki Andríkis með fjárframlögum, reglulega eða í eitt og eitt skipti. Þessum síðastnefndu lesendum eru færðar sérstakar þakkir og þá einnig þeim sem kjósa að bætast í þeirra hóp, en finna má hlekk til þess hér.

Þau fimmtán ár sem Vefþjóðviljinn hefur komið út hefur hann átt það meginerindi við lesendur sína að berjast fyrir frelsi hins almenna manns til orðs og æðis. Frelsi hans til að hasla sér völl án þess að ganga gegn rétti annarra, frelsi til þess að eignast eigur og nýta þær, frelsi hvers og eins manns til þess að haga lífi sínu eftir eigin höfði eins og kostur er. Sú barátta er nú brýnni en nokkru sinni fyrr í manna minnum. 

Vefþjóðviljinn er ekki vanur að ávarpa lesendur sína og hefur aðeins gert það einu sinni ef hann man rétt. Einhvern tímann verður allt næstfyrst. Hér hafið þér fimmþúsundfjögurhundruðsjötugastaogníunda tölublað Vefþjóðviljans, lesið og sannfærist.