Mánudagur 23. janúar 2012

Vefþjóðviljinn 23. tbl. 16. árg.

Heiftin heldur áfram.

Nú hafa ofstopamenn innan og utan þings krafist þess að forseti Alþingis verði settur af. Birgitta Jónsdóttir, sem stundum er ekki ljóst hvort lítur fremur á sig sem alþingismann eða borgarskæruliða, segist nú safna liði meðal þingmanna í þessu skyni, og að minnsta kosti Mörður Árnason kveðst hafa skrifað undir hjá henni. Í gærkvöldi bættust svo við Ungir jafnaðarmenn og kröfðust hins sama

Vefþjóðviljinn er enginn sérstakur stuðningsmaður Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur. Ef menn vilja setja hana af sem forseta og kjósa einhvern betri, þá það. En það sem vekur verulega athygli er ástæðan sem gefin er fyrir því að setja verði forsetann af. Sú ástæða sýnir, eins og margt annað gerir þessi árin, ofstækið sem lítið lát virðist á.

Sök Ástu Ragnheiðar er að hafa tekið tillögu Bjarna Benediktssonar um afturköllun ákæru á hendur Geir Haarde á dagskrá. Undir venjulegum kringumstæðum væri mjög sérkennilegt að krefjast brottvikningar þingforseta fyrir það að taka framlagt mál á dagskrá. En hér er enn afbrigðilegri hugsunarháttur á ferð.

Hvers vegna: 

Jú, þessi krafa er sett fram, eftir að Alþingi er sjálft búið að greiða atkvæði um að málið skuli ganga til annarrar umræðu. Alþingi beinlínis hafnaði tillögu um að málið yrði tekið af dagskrá. Það liggur sem sagt fyrir að Alþingi ekki aðeins vill að málið komist á dagskrá heldur vill að málið fái þar áfram þinglega meðferð.

Þannig að þess er beinlínis krafist að forseti Alþingis verði settur af, fyrir að hafa sett á dagskrá tillögu sem þingmaður lagði fram og Alþingi hefur síðan með sérstakri atkvæðagreiðslu ákveðið að skuli vera áfram á dagskrá. 

Hversu blint getur ofstækið verið? Hversu lengi á þetta að ganga svona?