Helgarsprokið 22. janúar 2012

Vefþjóðviljinn 22. tbl. 16. árg.

Sennilega fær fólk aðeins að sjá ysta lagið, en samt er alltaf jafn fróðlegt að sjá framan í hatrið og heiftina sem eru mörgum svo töm þessi misserin. Tillaga um að fallið verði frá ákæru á hendur Geir Haarde hefur einmitt opnað lítinn glugga inn í heiftarheiminn. Sumir þingmenn virðast hreinlega verða viti sínu fjær við tilhugsunina um að pólitískur andstæðingur þeirra fari ekki á sakamannabekk. Sama virðist mega segja um fjölmarga álitsgjafa.

Svona hefur þetta raunar verið allt frá bankahruni. Ekki er þó víst að í öllum tilfellum hafi bankahrunið kveikt heiftina. Margir hafa hins vegar tekið bankahrunið sem tilkynningu um að „nú megi Þeir“. Nú hafi þeir fengið opna heimild til að fara sínu fram og knýja vilja sinn fram með valdi. Mörgum fannst allt í lagi að grýta þingið og dómkirkjuna, kasta jafnvel logandi kyndlum að þinghúsinu, af því að þá sjálfa langaði að skipta um ríkisstjórn. Menn köstuðu grjóti og mannaúrgangi að lögreglunni af því að þeir sjálfir vildu ekki að hún þvældist fyrir þeim. Menn brutu dyr á lögreglustöðinni til að frelsa mann sem þeir sjálfir vildu ekki að hefði verið handtekinn. Margir telja sig ekki þurfa að fara eftir öðrum lögum en þeim sjálfum hentar. Réttarríkið varðar þá til dæmis ekkert um. Á orðum sínum vilja þeir enga ábyrgð þurfa að bera, allt slíkt sé bara þöggun og ritskoðun. 

Fjölmörg dæmi mætti telja um þetta. Hjá ótrúlegum fjölda fólks stýrir heiftin  orðum og gerðum. Og umræðan um afturköllun ákæru á hendur Geir sýnir inn fyrir yfirbragð margra og sú sjón er ekki alltaf fögur.

Sumir hafa þó reynt að færa efnisleg rök fyrir andstöðu sinni við afturköllun ákærunnar. Enn hefur Vefþjóðviljinn þó engin heyrt sem halda vatni. En ekki skortir upphrópanirnar og frasana, eins og íslensk þjóðmálaumræða er svo rík af.

Ein gagnslausustu rökin í málinu eru þau að það sé „Geir fyrir bestu að fá dóm í máli sínu“. Verði hætt við málið nú, þá leiki alltaf „vafi á sekt hans eða sýknu“.

Hvers vegna eru þessi rök óboðleg? Segja má að fyrir því séu fyrst og fremst tvær ástæður, þó aðeins önnur þeirra sé í raun lögfræðileg og skipti því máli þegar tekin er ákvörðun um ákæru. 

Sú ástæða sem máli skiptir er auðvitað sú að ákæruvaldið, í þessu tilviki Alþingi, ákærir menn ekki í greiðaskyni. Jafnvel þótt Geir vildi fá ákæru og dómsmeðferð, þá skipti það engu máli. Þeir sem helst bera þessari röksemd við, til að hindra það að fallið verði frá ákærunni, virðast því ekki hafa nein haldbær rök fyrir afstöðu sinni.

En annað má hins vegar nefna, þótt ekki sé lögfræðilegt atriði. Í því andrúmslofti sem nú ríkir á Íslandi, hvað gera ofstækismennirnir þar með sýknudóm?

Ekki er nú langt að minnast skrípakosningarinnar til stjórnlagaþings. Ágreiningurinn um gildi kosningarinnar var nú bara lagður fyrir Hæstarétt landsins eins og lög gera ráð fyrir, og afstaða Hæstaréttar var skýr. Kosningin var ógild, og blasti sú niðurstaða auðvitað við. En hvernig tóku álitsgjafarnir og ofstopamennirnir niðurstöðu Hæstaréttar? Þeir bara frussuðu í hneykslun. Niðurstaðan var bara einhver „lagatækni“. Álitsgjafarnir þurftu tvo daga í að sannfæra sig um að niðurstaða Hæstaréttar væri bara vitleysa. Eftir nokkurra daga æsingablogg, þar sem vanþekkingin var í sumum tilfellum yfirþyrmandi, var búið að afgreiða samhljóða niðurstöðu Hæstaréttar. Síðan var henni hent og ekki gert annað með hana en að skipta um nafn á hinu ólöglega kosna stjórnlagaþingi. Sumir láta eins og tillögur slíks ráðs verðskuldi umræðu.

Hvernig er það svo í sakamálum? Eru menn búnir að gleyma umræðunni sem oft verður, einkum ef sýknað er í kynferðisbrotamáli? Fólk sem ekkert þekkir til málavaxta hikar ekki við að fullyrða opinberlega að hinn sýknaði maður sé víst sekur. Í sumum tilfellum er hann nafngreindur í fjölmiðlum. Þeir missa starf og mannorð. Sumir munu hafa flúið land. Og þar er ekkert bankahrun til að kynda undir æsinginn.

Þeir sem undanfarin misseri hafa stjórnast af heift og hefnigirni, hatast meira að segja við stjórnarskrána eins og allt annað sem reynst hefur vel, þeir sem eru víst núna að reyna að koma forsta alþingis úr embætti fyrir þann glæp að hafa tekið framlagt mál til umræðu, – hvernig dettur einhverjum í hug að slíkir menn geri eitthvað með sýknudóm? 

Ákæran á hendur Geir Haarde er liður í því sem ákveðnir þjóðfélagshópar kalla „uppgjör“. Það uppgjör á ekkert skylt við réttlæti. Það snýst einfaldlega um að ná höggi á allt og alla sem þessir hópar hafa lengi fjandskapast við.