Mánudagur 9. janúar 2012

Vefþjóðviljinn 9. tbl. 16. árg.

Sá virti þjóðarleiðtogi, Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, hóf í gær ferð um rómönsku Ameríku, til að afla sér vina. Samkvæmt fréttum þá er ferðinni heitið til þeirra ríkja þar sem sérstakir andstæðingar Bandaríkjanna eru við völd. Ahmadinejad mun heimsækja Chávez í Venesúela, Ortega í Nígaragúa og Castro á Kúbu.

Hvað eiga þessir menn sameiginlegt? Af hverju ætti íslamískt ríki eins og Íran að vera sérstakur bandamaður Venesúela? Halda þeir kannski að Venesúela og Nígaragúa muni taka upp sharía-lög á næstunni? Eða að áfengisbann og andlitsslæður séu alveg að verða aðalmálið í Havana?

Nei, Ahmadinejad og íslamistarnir hans eiga aðeins eitt sameiginlegt með Chávez, Castro og Ortega. Það er hatrið á Bandaríkjunum. Þeir geta rökstutt hvað sem er með því að benda á Bandaríkin. Hvað sem er má gera með því að segja að þannig verði komið höggi á Bandaríkin. Allt sem Bandaríkin vilja, það sé vont. Viljið þið kannski að Bandaríkin nái áhrifum á nýjan leik, spyrja þeir stuðningsmenn sína. Nei ekki það, þegiði þá og standið með mér.

Er þetta svo ólíkt því sem menn þekkja norðar á hnettinum? Nema þar eru það ekki Bandaríkin heldur Sjálfstæðisflokkurinn sem heldur ólíkum hatursöflum saman. Er ekki hvað sem er rökstutt með því að það bara verði að brjóta niður áhrif Sjálfstæðisflokksins? Viljið það að Sjálfstæðisflokkurinn nái aftur völdum, ha? Nei, þegiði þá og standið með okkur þrátt fyrir við förum gegn okkar eigin stefnu og loforðum. Ekki viljið þið fá Sjálfstæðisflokkinn aftur, er það?

Heiftin gengur svo langt, að sumir halda til streitu árásum sína á stjórnarskrá landsins, og hafa úrskurð Hæstaréttar landsins að engu í þeirri baráttu, fyrst og fremst vegna þess að þeir telja að Sjálfstæðisflokkurinn vilji ekki rústa stjórnskipaninni. Og fyrst hann vilji það ekki, þá verði auðvitað að gera það. „Íhaldið er skíthrætt“, hrópaði stjórnmálamaður einn yfir þingheimi, þegar Hæstiréttur ógilti stjórnlagaþingskosninguna hennar. Ekki orð um lög og rétt, bara hvað „íhaldinu“ fyndist. Þegar vinstrimenn telja sig vita hvað „íhaldið“ vill, þá vita vinstrimenn um leið hvað þeir vilja sjálfir.