Vefþjóðviljinn 8. tbl. 16. árg.
Í nýjasta hefti tímaritsins Þjóðmála er fjallað um nokkrar þeirra nýútkomnu bóka sem fást í Bóksölu Andríkis.
Ásgeir Jóhannesson, lögfræðingur og heimspekingur, skrifar um hina frægu skáldsögu Ayn Rand, Uppsprettuna. Sú bók kom fyrst út í Bandaríkjunum árið 1943 og fékk þá raunar heldur dræma dóma gagnrýnenda. En meðal almennra lesenda spurðist hún ákaflega vel út og hefur til þessa dags selst í milljónum eintaka. Í ritdómi Þjóðmála segir:
Uppsprettan færði Ayn Rand frægð og frama – bókin reyndist þau mikilvægu tímamót sem lögðu grunninn að farsælum ferli höfundarins, sem síðar varð einn vinsælasti kvenrithöfundur allra tíma. En Uppsprettan hefur einnig reynst vera mikilvæg tímamót í lífi lesenda; mörgum þeirra færði hún ekki aðeins ómælda ánægju, heldur stuðlaði gjarnan að varanlegri breytingu á viðhorfum og lífsstíl. Í raun lagði bókin grunninn að nýjum hugsunarhætti og er iðulega nefnd sem ein af helstu „költ“-bókum tuttugustu aldar. Kvikmyndagerð bókarinnar, byggð á handriti eftir Rand sjálfa og með Hollywood-leikarann góðkunna, Gary Cooper, í aðalhlutverki í aðalhlutverki, birtist á hvíta tjaldinu árið 1949.
Þó að Ayn Rand sé af mörgum þekkt fyrir ögrandi stjórnmálaskoðanir, þá er Uppsprettan ekki pólitísk bók, heldur ristir hún dýpra í vissum skilningi. Segja má að bókin sé tilvistarleg eða lífsspekileg í grunninn. Hún fæst við valkostina sem skynsemisverur standa frammi fyrir og varpar ljósi á ýmis grundvallarmálefni: hverskonar líf sé eftirsóknarvert, hvernig hugarfar stuðli að lífvænlegri breytni, hvaða hlutir gefi lífinu merkingu og ljái því gildi, og svo framvegis. En slíkur heimspekilegur skilningur á bókinni er aðeins ein hlið hennar. Önnur mikilvæg hlið, sem er vafalaust fullnægjandi fyrir marga lesendur, er einfaldlega fléttan, sú saga sem er sögð, ljóslifandi persónur, ástir þeirra og örlög.
Það er ánægjuefni að Uppsprettan sé nú aftur fáanleg í íslenskri þýðingu, en fyrsta útgáfa þýðingarinnar, sem þá hét Uppruninn, er löngu ófáanleg í bókaverslunum. Í þessari mögnuðu skáldsögu er fjallað um afar ólíkar manngerðir sem margar eiga sér frændsystkini í nútímaþjóðfélagi. Þar er maðurinn sem á hugsjón sem hann heldur tryggð við, þarna er maðurinn sem eltist við hið reikula almeningsálit, þarna er sá sem hlýtur auð og völd fyrir að segja fólk það sem það vill heyra, og þarna er sá sem, svo notuð sé endursögn Ásgeirs, stendur fyrir „vilja hinna máttlitlu til valds, þar sem skapandi fólk er fjötrað af hinum litlausa fjölda, múgnum sem ræðst gegn öflugum einstaklingum – og sem af hégóma og öfund vill spilla því háleita og göfuga.“ Fulltrúi þeirra í sögunni „er maður sem er „rödd fólksins“ og notar fagurgala-hugtök á borð við lýðræði og jafnrétti til að fegra óheilbrigt hugarfar og breiða yfir illan ásetning.“
Ásgeir Jóhannesson segir í ritdómi sínum að Uppsprettan sé „einstök bókmenntaperla, andlegt dýnamít sem enginn má láta fram hjá sér fara.“ Óhætt er að hvetja alla hugsandi menn til að kynna sér hina heimsfrægu Uppsprettu af eigin raun og meta svo með sjálfum sér hvort hér sé mikið ofsagt.
Af allt öðrum toga er bókin Síðasta vörnin eftir Óla Björn Kárason. Um hana fjallar í Þjóðmálum Jón Magnússon hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi alþingismaður. Jón segir að bók Óla Björns sé nauðsynleg og öfgalaus umræða um mikilvægt málefni. Jón segir:
Ég lít á þessa umfjöllun höfundar, þar sem hann varpar, fyrstur bókahöfunda eftir hrun, kastljósinu sérstaklega á hlutverk og ábyrgð dómstóla og fjölmiðla, sem mikilvægt innlegg í umræðu, sem verður að fara fram, og mun fara fram, þegar betri greining fæst á því hvað gerðist í raun, og flett hefur verið ofan af þeim gapuxum sem farið hafa mikinn og vegið að fjölmörgum fyrrverandi ráðamönnum persónulega í fjölmiðlum eftir hrun. Bók Óla Björns Kárasonar er því kærkomið og gott innlegg í vitræna málefnalega umræðu um aðdraganda hrunsins.
Annars staðar í ritdómi sínum segir Jón Magnússon hæstaréttarlögmaður:
Stór hluti bókarinnar fer í að rekja upphaf Baugsmálsins og það andrúmsloft sem var í þjóðfélaginu þegar rannsókn Baugsmálsins hófst og með hvaða hætti fjölmiðlum var beitt til að fá fólkið til að trúa því, í fyrsta lagi, að þeir sem voru grunaðir í málinu og sættu rannsókn hefðu ekkert gert, og um væri að ræða pólitíska aðför að þeim. Höfundur gerir þeim þætti ágæt skil í bókinni og nær að sýna fram á við hvaða aðstæður þeir störfuðu sem höfðu það hlutverk að gæta laga og réttar gagnvart stóru viðskiptahagsmununum fyrir hrun. Sú saga er rakin mun ítarlegar hvað Baugsmálið varðar í bók Björns Bjarnasonar, Rosabaugur yfir Íslandi, en niðurstaða beggja höfunda er að meginstefnu sú sama. Ég mæli með báðum þessum bókum sem mikilvægum í umræðuna og til að auka skilning á því sem átti sér stað í aðdraganda efnahagshrunsins og hvaða lærdóm má af því draga.