Vefþjóðviljinn 7. tbl. 16. árg.
Það er ekki ónýtt að geta vitnað í Sunnudagsmoggann snemma laugardags. Sérstaklega þegar þar eru ljómandi viðtöl eins og Kolbrúnar Bergþórsdóttur við Rúnar Frey Gíslason leikara.
Rúnar Freyr er spurður um margt og þar á meðal stjórnmálin.
Um tvítugt var ég mjög hrifinn af frjálshyggjunni og þeirri hugmynd að ríkið hefði sem minnst afskipti af fólki. Ég var heillaður af hugmyndum Johns Locke um að maðurinn sem moki skurðinn eigi skurðinn, alveg eins og málarinn á málverkið sem hann málar. Þetta er grunnurinn að minni pólitík. Ég hef engan áhuga á íslenskri pólitík í dag. Hún er of persónuleg og málefnasnauð og menn skipta um skoðun á einni nóttu eftir því hvað hentar þeim. Maður sér blóðuga baráttu innan flokka og oft ýtir þessi leikur undir lægstu hvatir manna. Þetta heillar mig ekki. En það sem fer mest í taugarnar á mér varðandi íslenska pólitík er þegar 63 alþingismenn telja sig geta sagt mér hvernig ég eigi að lifa og haga mér. Það er ekki hlutverk alþingismanna að ákveða slíkt.
Eins og aðrir er ég hugsi yfir því sem gerðist hér í hruninu en mikið hefur verið bullað eftir hrunið og það furðulegasta er þegar fólk heldur því fram að það sé frjálshyggjunni að kenna að ofvaxið ríkisapparat fór nánast á hliðina með ríkisábyrgð á einkareknum bönkum, með ríkisrekinn Seðlabanka og ríkisrekið fjármálaeftirlit. Ég skil ekki hvernig fólk getur haldið þessu fram.
Líkt og Rúnar Freyr lýsir er vissulega furðulegt að það sé skrifað á reikning frjálshyggjunnar þegar svo víðtæk ríkisafskipti steyta á skeri. Og það eru jafnvel meiri firn að þeir sem helst vilja bæta þessu á reikning frjálshyggjunnar eru fremstir í flokki þeirra sem telja að ótakmörkuð ríkisábyrgð hafi verið á Icesave reikningum Landsbankans í gegnum innlánstryggingasjóðinn sem ríkið setti upp sem sjálfstæðan sjóð sem fjármálafyrirtækin fjármögnuðu. Hvílík frjálshyggja.